29.12.2006 | 09:06
600 þúsund eða 1,4 milljónir
Fréttir úr viðskiptalífinu hafa verið áberandi í fjölmiðlum á árinu sem er að líða. Það er eðlilegt. Viðskipti eru orðinn stærri hluti í samfélaginu en áður. Útrásin setur mjög mikinn svip á þjóðfélagið okkar og hefur flutt hingað mikið fjármagn í formi arðs og skapað fjölmörgu fólki ný störf, ekki síst hér innanlands. Lífeyrissjóðir fjárfesta í atvinnufyrirtækjum og búa þannig til arð sem stendur undir lífeyri okkar í framtíðinni og síðast en ekki síst; tugir þúsunda Íslendinga leggja sparnað sinn að einhverju leyti í hlutabréf. Almenningur á þannig beinna hagsmuna að gæta ,auk þess sem fréttir af vendingum og breytingum í atvinnulífinu geta haft áhrif á störf fólks.
Svo er auðvitað ekki síst hitt, að það er fréttnæmt að heyra og lesa um allar þær breytingar sem gerast vikulega í viðskiptalífinu, þó við sem utan stöndum eigum fullt í fangi - og ríflega það - með að átta okkur á öllum þeim straumum og stefnum sem atvinnufyrirtækin eru að taka. Eigna og eigendabreytingar eru löngu orðnar óskiljanlegar flestu fólki og það jafnvel í fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og þar sem þúsundir og tugþúsundir hluthafa eiga beinna hagsmuna að gæta; svo ekki sé nú talað um starfsfólkið.
En upp úr stendur að mikill gangur er í atvinnulífinu. Tölur um afkomu sýna það. Í meðförum Alþingis var tekjuáætlun fjárlaga hækkuð, meðal annars með tilliti til væntinga um hækkaðar skattgreiðslur af tekjuskatti fyrirtækja vegna batnandi afkomu.
Þátttaka í hlutabréfakaupum virðist líka almennt hafa verið arðvænleg iðja á líðandi ári. Lausleg athugun á arðsemi hlutabréfa á árinu sem er að líða og sem skráð eru í Kauphöll Íslands leiðir það í ljós að hlutabréf í fimm fyrirtækjum hafi lækkað. Hin hafi hins vegar hækkað. Taka þarf hins vegar tillit til margra þátta við slíkan samanburð, svo sem verðlagsbreytinga og vaxtakjara í innlánsstofnunum.
Engu að síður er ljóst að kaup í hlutabréfum er ekki einvörðungu hagnaður og getur aldrei orðið það. Slík fjárfesting er ætíð undirorpin óvissu og þar með áhættu. Þar getur brugðið til beggja vona. Tökum tvö dæmi:
Maður sem átti í handraðanum 1 milljón króna í upphafi árs gæti hafa átt marga kosti til ávöxtunar. Ef hann hefði keypt hlutabréf í því fyrirtæki þar sem hlutabréfin hækkuðu mest, ætti hann í dag um 1,4 milljónir. Ef hann hins vegar hefði fjárfest í því fyrirtæki þar sem ávöxtunin var lökust, ætti hann í dag 600 þúsund króna. Munurinn er um 800 þúsund krónur, eða 80% þeirrar upphæðar sem hann fjárfesti fyrir í upphafi. Og ef hann hefði tekið lán fyrir helmingi upphæðarinnar, ætti hann varla fyrir skuldum í versta tilvikinu.
Þetta er hinn kaldi veruleiki. Fátt er nefnilega án áhættu. Allra síst fjárfestingar.Það mega jafnvel þeir reyna sem snjallastir eru og klárastir eru á þessum sviðum og það má sjá af fréttum ársins af fjárfestingum sem mistókust.
28.12.2006 | 09:03
Auknar og fjölbreyttari sjávarrannsóknir
Þó nokkuð hafi áunnist er ljóst að verulega þarf að auka fé til haf og sjávarrannsókna. Verkefnið er stórt og ærið og miklu varðar fyrir okkur að kunna svör við þeim áleitnu og erfiðu spurningum sem lífríkið í hafinu vekur stöðugt með okkur. Vísindamenn okkar vinna frábært starf og njóta góðs álits. Lykillinn að enn frekari árangri er fólginn í frekari og fjölbreyttari rannsóknum.
Þetta hafði ég í huga er ég beitti mér fyrir því að efnt var til sérstaks átaks í rannsóknum, þar sem markmiðið var í rauninni tvennt. Að stuðla að meiri og frekari hafrannsóknum og gefa vísindamönnum sem víðast að úr rannsóknarsamfélaginu tækifæri til þess að takast á við þessi verkefni.
Þess vegna var stofnað til þess sem við höfum kosið að kalla Samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Í stjórnina valdist úrvals fólk. Formaður er dr. Jakob K. Kristjánsson og með honum starfa í stjórninni þau Rannveig Björnsdóttir á Akureyri, deildarstjóri RF og Kristján Jóakimsson, framleiðslu og markaðsstjóri hjá HG í Hnífsdal
Sjóðurinn hefur lokið verkefni sínu fyrir þetta ár. Til ráðstöfunar voru 25 milljónir. Ætlunin var að sjá hver árangurinn yrði af þessu framtaki. Það er ljóst af umsóknum að ærin þörf var á þess konar sjóði. Umsóknirnar voru margar og fjölbreytilegar og voru miklar að gæðum. Það er sannarlega ánægjulegt. Við sjáum að við Íslendingar höfum á að skipa miklum fjölda frábærs vísindafólks með athyglisverðar hugmyndir á sviði sjávarrannsókna.
Þá er athyglisvert að umsækjendur koma víða að úr þjóðfélaginu. Þessi mikli fjölbreytileiki kemur enda fram í úthlutunum. Styrkirnir eru veittir til vekefna þar sem verið er að fjalla um átta mismunandi tegundir sjávarlífvera. Aðalumsækjendur sex þeirra eru staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins og í hinum eru einnig samstarfsaðilar af landsbyggðinni. Þetta sýnir að gróska er mikil og góð á sviði sjávarrannsókna utan höfuðborgarsvæðisins, gagnstætt því sem stundum er talið. Þessi sjóður ýtir undir þá starfsemi.
Ennfremur er það mjög ánægjulegt að Hafrannsóknarstofnun er samstarfsaðili í fjórum þessara verkefna, sem gerir það að verkum að úthlutun sjóðsins eflir þá þýðingarmiklu starfsemi sem fram fer innan stofnunarinnar. Jafnframt leggur stofnunin þannig sitt af mörkum til þess að efla og ýta undir rannsóknarstarfsemi utan hennar.
Loks er þess að geta að konur eru verkefnastjórar í þriðjungi þessara verkefna og sýnir að einnig á þessum sviðum hafa konur haslað sér völl og mun svo væntanlega verða enn frekar í framtíðinni.
Í heildina tekið er ljóst að sjóðurinn stuðlar að meiri og fjölbreyttari rannsóknum og vísindastarfi. Um er að ræða samkeppnissjóð þar sem krafa er gerð til að´umsækjendur leggi að minnsta kosti jafn háa upphæð á móti. Samkeppnisdeildin leysir því úr læðingi rannsóknaverkefni sem ætla má að velti amk. 50 milljónum og líklega verulega hærri upphæðum. Áhuginn og umsóknirnar sýnir að þörf er á frekara fjármagni til slíks starfs. Það er okkur hvatning til dáða.
27.12.2006 | 11:23
Gagnstæð álit á sterkum ríkissjóði
Það er rétt sem segir í áliti Greiningardeildar Landsbankans, ákvörðun matsfyrirtækisins Standards & Poors ( S&P ) um að lækka lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir erlendar og innlendar skuldbindingar kemur nokkuð á óvart. Bæði vegna þess auðvitað að nýverið
hafði annað alþjóðlegt matsfyrirtæki, Moodys, kunngert allt annað mat og að staða ríkissjóðs Íslands er einkar sterk um þessar mundir.
Raunar vitnar Landsbankinn til fréttar af afstöðu Moodys, þar sem fram kemur að "meðal styrkleika telur Moody's há og jöfn lífsgæði og langvarandi pólitískan stöðugleika. Ennfremur traust ríkisfjármál, lágar opinberar skuldir og að hagkerfið byggi á sífellt breiðari grunni."
Um líkt leyti og fréttir bárust af þessum gagnstæðu álitum erlendu matsfyrirtækjanna birtust fréttir af sterkri stöðu ríkissjóðs. Hagstofan birti tölur þar sem í ljós kemur að tekjuafgangur hins opinbera á fyrstu níu mánuðum ársins nam 49,4 milljörðum, eða sem nemur 4,3% af landsframleiðslu. Þá jukust tekjur hins opinbera um rúmlega 9% frá sama tíma í fyrra og útgjöldin um 6%.
Þetta sýnir okkur gríðarlega sterka stöðu og að tekjugrunnur ríkissjóðs hefur batnað. Við erum að fá tekjur af nýjum tekjustofnum, eins og fjármagnstekjuskatti og afkoma atvinnulífsins og hækkandi laun í landinu gefa vísbendingu um vaxandi tekjur af tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga þó tekjuskattsprósentan hafi lækkað.
Það er svo athyglisvert að S&P matsfyrirtækið vísar til þess að fjárlagaafgangur hafi minnkað í meðförum Alþingis. Engu að síður er afgangur á fjárlögum um 9 milljarðar króna. Það þætti víðast hvar gott. Útgjöldin sem hækka eru á sviði velferðarmála og menntamála. En eins og menn vita hefur ríkisstjórnin fremur verið gagnrýnd fyrir að leggja ekki nægjanlegt fjármagn til þessara málaflokka, en að of ríkulega sé skammtað til þeirra.
Ennfremur er ljóst að ákvörðun okkar um að lækka matvöruverð hefur áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál og má segja að almenn samstaða hafi verið um þessar aðgerðir. Engu að síður hækka tekjur ríkissjóðs um rösklega 3 milljarða skv. endanlegum fjárlögum frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október sl. Þannig má segja að í meðförum Alþingis hafi komið í ljós að tekjur voru fremur vantaldar en ofmetnar.
Þá er ástæða til þess að vekja athygli á því að ákveðið hefur verið að grípa til sérstakra aðgerða til þess að styrkja gjaldeyrisvarasjóðin, sem ásamt öðru styrkir mjög stoðir hagkerfis okkar.
21.12.2006 | 12:04
Hin göfuga angan skötunnar
Hin dýrðlega tíð kæstrar skötu er að renna upp. Raunar hefur hún þegar runnið upp á mínum borðum. Í fyrradag var fyrsti í Þorláksmessu hjá mér. Þann dag var mér nefnilega boðið í fyrstu skötuveisluna á þessari vertíð.
Það var vinur minn Gunnar Jóhannsson frá Hólmavík, eigandi Drafnarinnar, sem bauð mér í dýrindis skötuveislu oní skip. Þar voru auk okkar Gunnars, bræður hans tveir, Guðmundur og Marinó, Magnús H. Magnússon Hólmvíkingur, Björn Friðrik Brynjólfsson aðstoðarmaður minn og tengdasonur Gunnars, Árni Magnússon skólastjóri og svili minn og enn einn góður vinur minn, Gunnar Þórðarson á Ísafirði. Þessi veisla fór svo fram undir styrkri stjórn Rúnars vélstjóra og snilldar skötukokks.
Framundan hjá mér eru að minnsta kosti tvær máltíðir með skötu. Ein á veitingahúsi, í hópi góðra vina og svo heljar veisla sem við Sigrún efnum til á heimili okkar með stórfjölskyldunni. Það eru vinir mínir í Bolungarvík, fiskverkendurnir Flosi Jakobsson og synir hans, sem sjá okkur fyrir skötunni, vel kæstri, gríðarlega bragðsterkri og áhrifamikilli. Og til þess að kóróna veisluhöldin, eys ég yfir dýrðina vestfirsku mörfloti. Að vísu er það sagt - og vitnað í vísindi - að mörflot sé ekki gott af heilsufarsástæðum, en ég legg ekki trúnað á svoleiðis bábiljur. Ég hef nefnilega séð fólk sem varð allra kerlinga og karla elst, úða flotinu í sig og er við hestaheilsu ! Vestfirska kæsta skötu ( og best er tindabykkjan ) ber manni að borða með mörfloti og ekkert múður.
Svo sá ég í dag, í því ágæta Fréttablaði, sagt frá skötuneyslu. Það var þó ljóður á ráði þeirrar góðu frásagnar að í fyrirsögn er sagt að fnykur sé af skötunni ! Það er ekki þannig. Af skötunni er ekki einu sinni eiginleg lykt, heldur göfug angan, sem blandast síðar meiri ilman barrjólatrésins og víkur loks fyrir góðri jólasteikarlyktinni. Þannig er skatan því, - eins og blaðið vekur svo réttilega athygli á - eiginlegur forboði jólanna. Og því má svo bæta við - afar ánægjulegur forboði.
Og svo eitt í lokin. Góðri skötumáltíð er best að ljúka með því að búa til skötustöppu að vestfirskum sið úr hnossgætinu. Þá er skatan einfaldlega stöppuð saman við mörflotið, svo úr verður hin kræsilegasta stappa, - sem pempíur kalla að vísu paté, upp á útlenskan máta, en er vitaskuld mesta rangnefni. Því skötustappa er hún og skötustappa skal hún vera.
19.12.2006 | 21:35
Af hverju er hið voðalega Ísland svona eftirsótt?
Af hverju skyldi þeirri mynd svo oft brugðið upp hér á landi að erlendis líti menn Ísland og það sem íslenskt er neikvæðum augum. Að Ísland hafi svo neikvæða ímynd í augum alheimsins, eins og það er orðað. Og sitthvað er týnt til. Hvalveiðar, afstaða okkar til yfirþjóðlegs botnvörpubanns, útrás íslenskra fyrirtækja, ekki síst á fjármála og smásölusviði. Og síðast en ekki síst er vísað til nýtingar okkar á endurnýjanlegum orkugjöfum. Allt er þetta sagt draga upp neikvæða mynd af okkar ylhýra landi.
Og nú berast enn fleiri válegar fréttir. Í sjálfum Economist eru nú sagðar fregnir af því að okkar vinsælasti rithöfundur Arnaldur Indriðason, dragi upp svo dökka mynd af höfuðborginni að mönnum ói við. "Líklega verður þetta ferðaþjónustu í Reykjavík ekki til framdráttar", segir tímaritið. Þessar fréttir hafa nú borist hingað til lands og maður bíður ósjálfrátt kvíðinn eftir því að einhver krefjist banns á bækur Arnaldar, eða að hann hagi skrifum sínum betur með tilliti til ímyndarinnar. - Við verðum jú alltaf að fórna minni hagmunum fyrir þá sem meiri eru.
Þó skrifaði Arnaldur ekkert ljótt um Dirty Weekend, eða neitt af því sem við höfum varið miklum fjármunum í að markaðssetja á erlendri grundu. Sú fjárfesting stendur því óhögguð.
En er þetta svo? Eru viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja að forðast áhersluna á Ísland?
Vart líður sú vika að ekki berist áskoranir stórra viðskiptavina okkar um að uppruni íslenska fisksins sé sérgreindur betur en núna. Menn vilja fá það staðfest að um sé að ræða vöru sem á uppruna af íslensku hafsvæði, sé veidd innan íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins, unnin í íslenskum fiskvinnslustöðvum, skv. okkar gæðastöðlum og hafi til að bera þann rekjanleika sem mikilvægur er talinn.
Nýjasta dæmið um álitið sem íslenskur fiskur nýtur birtist á heimasíðu Fiskistofu og einnig heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
Eins og hér var bloggað um í gær sækja útlendingar Ísland heim sem aldrei fyrr. Það er örugglega vegna áhugans á landinu og þjóðinni, náttúrufars okkar, sögu og þeirrar afþreyingar sem ferðaþjónustan hefur byggt upp.
Við vitum vel að mörgum hugnast hvalveiðar illa, setja fyrirvara við útrás íslenskra fyrirtækja, kunna ekki að meta virkjanir okkar. Og kannski á sviðakjammaát Erlendar lögreglumanns í kvikmynd Arnaldar og Baltasars Kormáks, Mýrinni, eftir að draga upp lakari ímynd af Íslendingum en áður; þetta er amk. ekki ímynd "gourmet" Íslands - hins nútímalega Íslands.
En við bönnum ekki Arnaldi að skrifa, né Baltasar að taka bíómyndir, eða íslenskum athafnamönnum að hasla sér völl. Af því einfaldlega að við erum hér ekki með Löggildingarstofu sem löggildir og faggildir atvinnugreinar, listgreinar, ímynd og smekk. Það er fjölbreytileikinn sem blífur.
18.12.2006 | 14:57
Innrás ferðamanna og útrás tónlistarfólks
Það gleður hjarta gamals formanns Ferðamálaráðs að sjá fréttir af heimasíðu Ferðmálastofu um fjölgun ferðamanna hingað til lands. Ef skoðaðar eru tölur fyrir fyrstu 11 mánuði ársins þá nemur fjölgunin 9,4% og aukningin ein, sem er 32 þúsund farþegar, er samsvarandi komum allra ferðamanna hingað til lands í maímánuði. Þetta eru sannarlega uppörvandi tölur.
Og ef við skoðum allra nýjustu tölurnar þá eru þær ennþá meira sláandi. Í vetur hefur mikil aukning ferðamanna orðið milli ára. Þannig var fjölgunin í október 18,6% og fjölgunin 36,4% í nóvember m.v sömu mánuði í fyrra.
Þetta sýnir okkur góðan og mikinn vöxt íslenskrar ferðaþjónustu. 36,4% fjölgun er ævintýralega góður árangur þó að við vitum að einn mánuður er ekki nægjanlegur sem mælikvarði einn og sér á árangur. Það sem er sérlega athyglisvert er að aukningin er svo mikil að vetrarlagi. Einmitt á því tímabili ársins sem við vildum gjarnan sjá aukningu. Þetta þýðir nefnilega lengingu ferðamannatímabilsins og bætta nýtingu á fjárfestingum í farartækjum, hótelum, veitingahúsum og afþreyingu.
Á heimasíðu Ferðamálastofu svarar Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu því hver sé ástæða þessarar aukningar. Hann segir: Í fyrsta lagi er frekar lítið um að erlendir starfsmenn séu farnir til síns heima á ný, og okkar talning er brottfarartalning sem fer fram við brottför í Keflavík. Í öðru lagi er vitað um þó nokkurn fjölda erlendra starfsmanna sem hafa farið í frí til síns heima undanfarið og hafa þeir flestir farið beint frá Egilsstöðum í flugi, en brottfarartalningin nær ekki yfir aðra flugvelli en í Keflavík. En auðvitað eru einhverjir erlendir verkamenn í tölunum, þó þeir skipti ekki þúsundum."
Þessu til viðbótar er einnig gaman að geta þess að útrásarstefna okkar á sviði afþreyingar og tónlistar ber mikinn ávöxt þessa dagana. Við þekkjum frægðarferðir margra góðra tónlistarmanna. Björk og SigurRós koma vitaskuld fyrst upp í hugann. Og yngri og nýrri tónlistarmenn eru farnir að láta að sér kveða úti í hinum stóra heimi. Má nefna hljómsveitina BangGang sem er að gera athyglisverða hluti í Bandaríkjunum og má lesa um á heimasíðu hljómsveitarinnar.
Og síðast en ekki síst er ástæða til að vekja athygli á þeirri athyglisverðu staðreynd að sjálft Latabæjarlagið er nú komið í 4. sæti breska vinsældarlistans. Þetta er góður árangur og í takt við vaxandi sölu íslenskrar tónlistar.
Þetta eru allt dæmi um framtak fólks sem hefur Ísland í farteskinu og haslar sér völl á erlendri grundu á vettvangi þar sem samkeppni er hörð og mikil. Þetta er ánægjulegur árangur á sviðum sem eru að verða enn meira gildandi um allan heim og marka núna mikil spor í íslenskt atvinnulíf og samfélag.
15.12.2006 | 10:01
Þetta voru tímar lífsháskans
Tvisvar hef ég rætt hleranir á umliðnum vikum. Fyrst á opnum hádegisfundi stjórnmálafræðiskorar H.Í. og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála miðvikudaginn 6. desember í tilefni af útkomu bókar Guðna Th. Jóhannessonar Óvinir ríkisins. Síðan á Alþingi tveimur dögum síðar í utandagskrárumræðu sem Ingibjörg Sólrún efndi til. Fernt stendur upp úr eftir þessar umræður.
Í fyrsta lagi. Þær hleranir sem efnt var til á umræddu tímabili - kaldastríðstímanum - voru takmarkaðar við ákveðin tilvik, svo sem þegar við gengum í NATO, við komu bandaríska varnarliðsins og heimsókn varaforseta Bandaríkjanna og fleiri atburði, svo sem Guðni rekur í bók sinni ( sjá td. bls 349). Þetta voru ekki samfelldar hleranir - njósnir - eins og reynt hefur verið að halda fram; og alltaf að undangengnum dómsúrskurði.
Í annan stað. Sú öryggisþjónusta sem hér starfaði var mjög smá í sniðum og vanmáttug. Hér var alls ekki um að ræða leyniþjónustu, hvað þá leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins, eins og reynt hefur verið að ljúga upp. Þetta rekur Guðni til dæmis afskaplega vel í bók sinni. Viðbúnaður lögreglu var einnig lítill á þessum tíma og augljóst að löggæslan réði illa við hinn minnsta samblástur.
Í þriðja lagi. Það ríktu raunverulegar áhyggjur af hugsanlegu ofbeldi og spellvirkjum. Þetta kemur til dæmis fram í orðum Kristjáns Eldjárns þáv. forseta Íslands og Einars Ágústssonar utanríkisráðherra, sbr bls. 311 - 312 í bók Guðna. Seint verða þessir menn þó sakaðir um pólitíska vænisýki.
Loks liggur fyrir að Sjálfstæðismenn vilja varpa sem mestu og skýrustu ljósi á þetta tímabil. Þetta áréttaði ég í ræðu minni á Alþingi jafnt og á fundinum í háskólanum. Þetta hefur ítrekað komið fram í máli Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og fleiri forystumanna flokksins.
Þetta voru merkilegir átakatímar sem verðskulda rannsóknir og skoðun. Undir forystu ríkisstjórnarinnar og í góðri sátt við stjórnarandstöðuna hafa verið lögð mikilvæg drög að slíku. Meðal annars með samþykktum Alþingis og lagabreytingum. "Þetta voru tímar lífsháskans", segir Matthías Johannessen fyrrv. ritstjóri Mogunblaðsins og má glöggt vita. "Það var ekkert dútl eins og í dag, pólitískt dútl, þverpólitískt dútl. Það var allt upp á líf og dauða" ( sbr bls 27 - 28).
Nú liggja fyrir margvíslegar rannsóknir á þessu tímabili. Þar má nefna ritverk manna eins og Þórs Whitehead, Vals Ingimundarsonar, Guðna Th. Jóhannessonar og ýmissa fleiri. Við höfum því forsendur til efnislegra og málefnalegra umræðna. Því miður hefur umræðan verið of slagorðakennd upp á síðkastið og alls ekki dregið dám af þeim ágætu rannsóknum sem þegar liggja fyrir. Utandagskrárumræðan var einmitt dæmi um þetta. Þessir merkilegu tímar verðskulda annars konar umfjöllun.
7.12.2006 | 23:29
Er skákin íþrótt eða list?
Hvort er skákin íþrótt eða list? Við tölum um skákíþrótt en einnig um skáklistina. Svarið er þess vegna þetta: skákin er hvoru tveggja; list og íþrótt. Skákin er keppni þar etja menn kappi. Hún byggir á gríðarlegri þjálfun, úthaldi og einbeitni. Hún er sannarlega hugaríþrótt og því íþrótt í þeim skilningi. En hún hefur einnig öll einkenni listarinnar, einbeitning, hæfileiki, að sjá yfir sviðið, rökhyggja í bland við frjóa hugsun. Þannig er hún list hugans.
Þegar ég fékk það hlutverk að setja Óttósmótið í Snæfellsbæ sl. laugardag, á 51 árs afmælisdaginn minn, var ég upptekinn við þessar hugsanir. Eftir að hafa ávarpað mótsgesti og keppendur var mér falið að leika fyrsta leiknum, fyrir stórmeistarann Helga Ólafsson og þar með hófst mótið.
Skáklistin stendur með miklum blóma í Snæfellsbæ. Menn koma saman vikulega til að tefla og þar er harðsnúin skáksveit. Það er dálítið merkilegt að skák virðist oft vinsæl í sjávarútvegsplássunum. Heima hjá mér í Bolungarvík var til dæmis mikið skáklíf og þeir höfðu það einmitt á orði við margir skákmennirnir sem mættir voru í Félagsheimilið í Ólafsvík. Ég velti vöngum yfir þessu í ávarpinu. Það var tilvalið að tefla í landlegum. Sjómenn hittu við skákborðið félaga sína og aðra íbúa byggðar sinnar. Þarna var því kjörinn vettvangur.
Ég veit það af reynslu að það er ekki áhlaupsverk að efna til annars eins viðburðar og Ottósmótið í skák er. Tryggvi L. Óttarsson fer þar fyrir harðsnúnum hópi sem skipuleggur mótið og stendur fyrir höfðinglegum móttökum. Þarna voru ríflega 80 skákmenn mættir til leiks á öllum aldri. Ungir og áhugasamir skákmenn fá tækifæri til þess að tefla við harðsnúna jaxla og stórmeistara og breiddin er því mikil. Skákin virðir heldur engin landamæri af nokkru tagi. Við skákborð mætast menn af öllum landshornum, fólk sem starfar í fjölmörgum starfsstéttum og á öllum aldri. Þess vegna er skákin svo einstök íþrótt - og list.
Það er sérstaklega gaman að sjá hversu skákin er að ryðja sér til rúms sem vettvangur fólks sem iðkar íþróttina af bestu list (og kannski lyst líka) Það hefur í rauninni orðið vakning. Þar eiga margir hlut að máli. Áhugamenn á borð við þá Snæfellingana sem standa fyrir skákstarfsemi í byggðum sínum. Kröftugir hugsjónamenn fullir eldmóði og þar kemur nafn Hrafns Jökulssonar vitaskuld fyrst upp í hugann. Verk hans verður til mjög margra fiska metið. Og svo eru það skákmeistararnir sjálfir sem eru fyrirmyndir. Og leyfist mér að nefna sjálfan forseta Skáksambandsins hana Guðfríði Lilju, sem ég átti því láni að fagna að vinna með í þinginu, en þangað stefnir hún nú ótrauð til þingsetu á vettvangi Vinstri Grænna.
Þetta var eftirminnilegur dagur. Gott upphaf á afmælisdegi og gaman og heiður að fá að setja mótið og leika fyrsta leikinn fyrir sjálfan stórmeistarann.
6.12.2006 | 08:55
Leitað að betri yfirlesara
Það var alls ekki fallegt að hlægja að ræðu formanns Samfylkingarinnar sem nú er farið að kenna við Keflavík og var flutt þar sl. laugardag. Þar sagði formaðurinn, sem frægt er orðið: "Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum - ekki ennþá, ekki hingað til"
Á Alþingi hentu menn þetta á lofti og það verður auðvitað að segja að sú umræða skýrði málið lítt eða ekkert. Jók fremur ruglandina, þrátt fyrir virðingarverðar tilraunir fjögurra þingmanna flokksins til þess að skýra málið. En það var nefnilega vandinn í hnotskurn. Jafnvel þó maður reyndi að halda niðri í sér hlátrinum, þá bara tókst það ekki. Það var þó ekki þar fyrir að ætlun þingmannanna hafi verið að reyna að vera fyndnir. Það má trúa því. Samfylkingarþingmönnunum var allt annað en hlátur í huga. Jóhann Ársælsson, Mörður Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir töluðu öll af mikilli alvöru um málið
En þau voru bara svo óskaplega hlægileg. Og þess vegna hló þingheimur. Ég get fullvisað lesara þessarar síðu að ég reyndi að halda alvörusvipnum, en ég bara náði því ekki.
Þórunn gerði ekki einu sinni tilraun til að skýra ummæli formannsins. Jóhann sagði að sér hefði brugðið illilega þegar hann heyrði þau sögð á flokksfundinum í Keflavík, en á honum mátti skilja að heldur væri hann nú að jafna sig. En verst lét þó Mörður. Hann sagði það brýnna að ræða örlög fuglanna í Húsdýragarðinum, en þetta mikla erindi flokksformanns síns. Já, það er rétt. Hann getur verið nöturlegur hann Mörður, þegar hann kærir sig um. - Það er mikilvægara að ræða um landnámshænur í garði einum í Reykjavík, en þau skilaboð flokksformanns hans sem mesta athygli hafa vakið, sagði hann sumsé.
En auðvitað var formaðurinn bara að skýra frá staðreyndum og við áttum þess vegna ekki að hlægja. Skoðanakannanir sýna að einungis 15% þjóðarinnar vilja ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna. Það er alvara málsins og vitaskuld grafalvarlegt fyrir stærsta stjórnarandstöðuflokkinn
Annars er það dálítið sérstakt þegar máflutningur stjórnmálaleiðtoga er þannig að menn telji sig þurfa að skýra hann sérstaklega. Að textinn standi ekki sem sjálfstætt verk - svo ég ekki segi bókmenntaverk.
En þarna er ekki mikillar skýringar að leita. Þingflokksformaðurinn Össur Skarphéðinsson, talar tvírætt á síðu sinni og til skilnings á skrifum hans þarf bæði kunnáttu í fiskifræðum og kínverskri stjórnmálasögu og gott ef ekki djúpsálarfræði ( ef hún er þá yfirhöfuð til sú grein) , enda segir hann: " Í Gjálfri Egils á morgun þarf ég að mæta og útskýra orð formannsins. Sjú-En-laí var alltaf fenginn ef þurfti að skýra meininguna í orðum Maós formanns. Ég er náttúrlega einsog fiskur í því vatni. Við Ingibjörg vitum yfirleitt hvað hitt hugsar áður en það er komið á form orða".
Og ekki er Mörður betri, sem segir á sinni síðu: "Vel má vera að formaðurinn minn þurfi að fá sér betri yfirlesara áður en hún gengur frá erindum sínum og ávörpum".
Þannig skrifa þeir félagarnir um formann sinn. Það var því ekki að undra að þingheimur hafi hlegið.
5.12.2006 | 08:57
Skýst þótt skýr sé
"Staða smáþjóða í umheiminum er sjaldan auðveld. Annars vegar eiga þær þann kost að draga sig sem mest í hlé frá skarkala heimsins og hyggja að sínu. Hins vegar að vera sem virkastar í þátttöku alþjóðlegs samstarfs. Hvorug leiðin er einföld. Hin fyrri leiðir til einangrunar og því áhrifaleysis. Hins síðari getur leitt til þess að hluta fullveldis verði fórnað fyrir seturétt við valdaborð alþjóðlegrar samvinnu.
Fullveldið verður hvorki varið með því að sitja hjá né með því að afhenda það fjölþjóðlegum stofnunum til ráðsmennsku. Þetta höfum við Íslendingar skilið vel. Við erum þátttakendur í alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi og sköpum okkur þar með áhrif. En við höfum aldrei gengið svo langt að ógna okkar eigin fullveldi eða fallast á að yfirþjóðlegar stofnanir hlutist til um þau mál sem eiga að vera á hendi sjálfstæðrar fullvalda þjóðar. Skýrt dæmi um það er nýting á auðlindum hafsins. Við erum þeirrar skoðunar að henni eigi að stjórna af einstökum ríkjum og svæðisbundnum stofnunum þar sem það á við. Þetta kemur skýrt fram í stefnumörkun íslenskra stjórnvalda um málefni hafsins og er þar eitt grundvallaratriða."
Þannig skrifa ég í grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem ég fjalla um tillögu þá um bann við botnvörpuveiðum á úthafinu, sem Sameinuðu þjóðirnar höfnuðu. Þess í stað var, eins og ég segi í blaðinu, gengið frá samkomulagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi vernd viðkvæmra vistkerfa í úthafinu. Um er að ræða mikilvægt mál, bæði vegna sjálfstæðs gildis viðkvæmra vistkerfa svo sem kaldsjávarkóralla, neðansjávartinda og hverastrýta og vegna mikilvægis þessara vistkerfa fyrir viðgang nytjastofna hafsins. Niðurstaðan felur í sér mikilvæga verndun og raunverulegar aðgerðir, án þess að skref sé stigið í þá átt að banna ákveðin veiðarfæri almennt.
Það er alveg ljóst er að ákveðin ríki og félagasamtök hafa viljað nýta sér þörfina á að vernda viðkvæm vistkerfi til þess að koma á algeru banni við notkun botnvörpu. Þetta er ekki mjög burðugur málflutningur, enda alveg ljóst að markmiðunum er hægt að ná með öðrum hætti. Það höfum við Íslendingar gert með góðum árangri.
Við þekkjum að hér hefur verið efnt til mikillar verndunar á hafsvæðum og strangar reglur eru í gildi sem banna tiltekin veiðarfæri á veiðislóð. Nú er til meðferðar Alþingis, frumvarp sem felur í sér frekari heimildir til banns við veiðum, með það að tilgangi að vernda hafsbotn.
Þess vegna er það aldeilis fráleitt að stilla málum þannig upp, eins og Washington Post gerir að við íslendingar séum að vinna gegn verndun á úthöfunum. Það er illt til þess að vita að svo virt og þekkt blað skuli verða leiksoppur óvandaðs málflutnings gegn þjóð sem nýtur alþjóðlegs álits vegna auðlindanýtingar sinnar.
Sannast það þarna að þeim getur skotist þótt skýrir séu