29.11.2006 | 23:24
Langa nefið Samfylkingarinnar
Af hverju ætli Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og Anna Kristín Gunnarsdóttir Skagfirðingur og þingmaður flokksins í NV kjördæmi hafi lagt leið sína á baráttufund í Skagafirði sem hafði það að yfirskrift að mótmæla hugmyndum um virkjun jökulsánna í Skagafirði? Svarið er einfalt. Þær vildu sýna flokksfélögum sínum það svo eftir væri tekið, að flokkurinn væri ósammála Skagafjarðarsellu Samfylkingarinnar hvað málefnið varðar.
Þannig er nefnilega mál með vexti að skagfirskt Samfylkingarfólk vill að gert sé ráð fyrir virkjun Villinganesvirkjunar og Skatastaðavirkjunar í aðalskipulagi Skagafjarðar. Í margumtalaðri stefnumótun flokksins á landsvísu, Fagra Ísland, er sérstaklega kveðið á um andstöðu við áform um virkjun jökulsánna í Skagafirði. Þarna er því á ferðinni, afar magnaður pólitískur ágreiningur innan flokksins. Sami ágreiningur og er á milli forystunnar annars vegar og flokksmanna á Akranesi, Austurlandi, Þingeyjarsýslu og Suðurnesjum hins vegar um virkjana og stóriðjumál. Flokksfólkið í þessum héruðum vill að virkjað sé til nota í stóriðjuuppbyggingu. Því er forystan ósammála og hefur bréfað það sérstaklega í stefnumótun sinni.
Ferð flokksformannsins norður í Skagafjörð og fram í Lýtingsstaðahrepp með þingmanni flokksins í héraðinu var þess vegna gerð til þess að senda flokksmönnum skilaboð. Þau eru þessi: Sama hvað þið segið, flokkurinn situr við sinn keip. Við erum á móti virkjununum. - Þarna eru engar tilviljanir. Ferðin á fundin er augljóslega meðvituð aðgerð, sem fól í sér skýrar pólitískar merkjasendingar, sem enginn átti að geta misskilið.
Afstaða forystunnar er algjörlega afdráttarlaus og heimsóknin norður var til að undirstrika það. Flokksforystunni í héraðinu er ekki ætlað að velkjast í vafa. Henni er einfaldlega gefið langt nef svo eftir er tekið.
Þetta er athyglisvert. Forysta Samfylkingarinnar á sveitarstjórnarstiginu í Skagafirði vill nefnilega ganga jafn langt og þeir sem lengst vilja ganga í virkjunum. Sjálfstæðismenn hafa lýst yfir vilja til að önnur virkjunin, Skatastaðavirkjun sé á aðalskipulaginu, en ekki Villinganesvirkjun. Þessari afstöðu hafa sveitarstjórnarmenn okkar fyrr og nú lýst vel í ræðu og riti. Skatastaðavirkjun er sú virkjun sem einhver veigur er í til orkuöflunar. Lítið munar um Villinganesvirkjun til þess brúks en ljóst að virkjunarréttur gæfi þeim sem hann fengi góða stöðu til frekari virkjana. Undir því merki gengur Samfylkingin í Skagafirði ásamt Framsóknarflokknum.
Í vandræðum sínum, hefur Samfylkingarfólkið reynt að halda því fram, að fyrir þeim vaki það eitt að setja tillögu um umræddar tvær virkjanir inn á aðalskipulag. Ekki sé um að ræða efnislega afstöðu til málsins. Þessu er að vísu fyrst og fremst haldið á lofti út á við í fjölmiðlum, en síður norður í Skagafirði og því fyrst og fremst ætlað til útskýringar fyrir flokksforystuna. En á fundinum sem forystufólk Samfylkingarinnar sótti frammi í Lýtingsstaðahreppi, var sérstaklega vikið að þessu með því að hafna því skýrt að virkjanirnar væru settar á aðalskipulag. Tillögu fundarins var því augljóslega sérstaklega beint gegn málflutningi Samfylkingarinnar. Ekki fer nokkrum sögum af andófi Ingibjargar Sólrúnar og Önnu Kristínar gegn þessari niðurstöðu fundarins. Það er sannarlega athyglisvert.
28.11.2006 | 21:26
Seinheppni þingmaðurinn
Þriðjudagurinn 28. nóvember reyndist ekki vera dagurinn hennar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur alþm. Samfylkingarinnar í NV kjördæmi. Hún hóf upp raust sína í morgunútvarpi RÚV í morgun og hafði mörg orð um vesældóm í vegamálum á Vestfjörðum; taldi bersýnilega fátt hafa verið gert og lítils að vænta í framtíðinni. En þingmaðurinn var einstaklega seinheppin. Sem væntanlega stafar af því að hún fylgist lítt með því sem er að gerast í vegamálum á Vestfjörðum. Ella hefði hún væntanlega hagað orðum sínum öðruvísi.
Fáeinum klukkustundum eftir að boðskapur þingmannsins var sendur út til okkar útvarpshlustenda, safnaðist nefnilega saman hópur verktaka og fulltrúar Vegagerðarinnar til þess að opna tilboð í stórframkvæmd í Gufudalssveit sem auglýst hafði verið fyrr í haust. Þetta er hluti af þeirri miklu framkvæmd sem er þar með komin á fulla ferð við tengingu byggðanna í Vestur Barðastrandarsýslu við aðalþjóðvegakerfi landsins. Þessi áfangi er að kostnaðarmati um 244 milljónir króna, en ágætir verktakar úr Norðvesturkjördæmi. KNH verktakar buðu lægst, 178 milljónir króna, sem er um 73% verkkostnaðar.
Senn má vænta úrskurðar umhverfisráðherra um vegastæði frá Skálanesi að Þorskafirði og þá verður hægt að byrja nauðsynlegan undirbúning að útboðum þessa verks.
Eftir hálfan mánuð verða tilboð opnuð í ennþá stærra verk, þar sem um er að ræða þverun Mjóafjarðar og Reykjafjarðar í Ísafjarðardjúpi, og aðliggjandi vegi. Þetta er örugglega eitt allra stærsta vegagerðarverkefni sem unnið verður á næstu árum og við lok þess sér fyrir lyktir vegatengingar í Ísafjarðardjúpi. Þessum framkvæmdum á að ljúka fyrir 1. nóvember árið 2008.
Vegurinn um Arnkötludal verður síðan boðinn út í byrjun næsta árs og verður lokið við hann fyrir árslok 2008.
Innan skamms munu liggja fyrir tillögur um Bolungarvíkurjarðgöng, en eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin það fyrir ári að setja til hliðar sérstakt fjármagn til þeirrar brýnu framkvæmdar.
Það er því óhætt að segja að Anna Kristín hafi ekki verið ýkja lánsöm þegar hún hugðist koma höggi á okkur stjórnarliða og samgönguráðherra fyrir meintan aumingjaskap í vegamálum á Vestfjörðum. En vilji hún nýta krafta sína með jákvæðum hætti mætti benda henni á að ræða aðeins við þá flokksfélaga sína sem sí og æ reka hornin í framkvæmdir á landsbyggðinni. Og mikið væri gaman að vera viðstaddur þegar hún útskýrir draumsýn sína um fjölda jarðganga til þess að tryggja vegalagningu á láglendi fyrir félögum sínum í Samfylkingunni. Manni hefur ekki sýnst hingað til að slíkar framkvæmdir væru ofarlega á óskalistum flokkssystkina hennar á höfuðborgarsvæðinu.
22.11.2006 | 23:06
Athyglisverð þverpólitísk lýsing á íslensku þjóðfélagi
Þær breytingar sem hafa orðið á þjóðfélagi okkar eru stórstígar og að lang flestu leyti til góðs. Langt er síðan ég hef þó lesið jafn greinargóða og knappa lýsingu á þessum breytingum og gat að líta í skýrslu nefndar um lagalega umgjörð stjórnmálaflokkanna. Það gefur þessari lýsingu sérstakt vægi, að höfundar skýrslunnar eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi.
Í skýrslunni segir orðrétt:
"Þær breytingar sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum áratugum hafa dregið stórlega úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi. Viðskiptalífið hefur verið leyst úr viðjum leyfisveitinga og úthlutunarkerfa sem buðu heim óeðlilegum þrýstingi á stjórnmálamenn um úthlutun takmarkaðra gæða og býr í dag við lagaumhverfi sem er sambærilegt við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrár og tilkoma stjórnsýslulaga og upplýsingalaga hefur stuðlað að meiri virðingu fyrir jafnræði borgaranna og auknu gagnsæi um forsendur stjórnsýsluákvarðana. Af öllu þessu leiðir að stjórnmálamenn hafa færri tækifæri til að beita áhrifum sínum til að mismuna fólki eða fyrirtækjum og því ætti væntanlega að vera minni hvati fyrir hagsmunaaðila að reyna að hafa áhrif á einstakar ákvarðanir stjórnmálamanna".
Þetta eru stórmerk skrif sem ástæða er til að vekja athygli á og undirstrika. Þau eru einstaklega lýsandi fyrir þær jákvæðu grundvallarbreytingar sem við höfum gert á íslensku þjóðfélagi. Þetta er lýsing á jákvæðri þróun frá gamaldags íhlutunarþjóðfélagi og að samfélagi almennra leikreglna. Þessar lýsingar á því hvernig viðskitpalífið er ekki á klafa úthlutana og póitískra inngripa, rifjar upp hvernig þessi breyting gekk fyrir sig. Hún gerðist ekki fyrirhafnarlaust. Hún kostaði átök gegn þeim þjóðfélagsöflum sem vildu festa okkur í niðurnjörvaða fortíð þar sem ekki var horft til þeirrar framtíðar sem nú er orðin að veruleika dagsins.
Þess vegna er svo gaman að lesa þessi athyglisverðu skrif sem setta eru á blað af fulltrúum allra stjórnmálaflokka í landinu. Þau staðfesta í raun að það sem var bullandi ágreiningur um á stjórnmálavettvangnum fyrir örskömmu síðar, er nú orðinn viðtekinn sannleikur og nýtur stuðnings þvert á flokksbönd. Í rauninni eru þetta all veruleg pólitísk tíðindi. Höfundar ívitnaðra skrifa verðskulda að þeirra sé getið hér á síðunni og skal það nú gert:
Sigurður Eyþórsson, Framsóknarflokki
Kjartan Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki
Margrét S. Björnsdóttir, Samfylkingu
Gunnar Ragnars, Sjálfstæðisflokki
Gunnar Svavarsson, Samfylkingu
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki
Kristin Halldórsdóttir, Vinstri Grænum
Helgi S. Guðmundsson, Framsóknarflokki,
Eyjólfur Ármannsson, Frjálslynda flokknum.
Og ritari þessa hóps var svo Árni Páll Árnason, frambjóðandi hjá Samfylkingunni.
20.11.2006 | 23:19
Fóður efnahagsspennunnar minnkar
Tvær stuttar fréttir úr efnahagslífinu sem birst hafa síðustu dægrin segja mikla sögu um stöðu mála. Í hinni fyrri var frá því greint að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu væri nú tekið að lækka. Þetta eru mikil tíðindi. Undanfarið hefur húsnæði nefnilega hækkað í verði um marga tugi prósenta á ári. Væntingarnar sem þessar hækkanir sköpuðu hleypti fólki kapp í kinn og varð eins konar driffjöður að gríðarlegri einkaneyslu. Þegar eignamyndunin jókst í formi hækkana á húsnæði skapaðist svigrúm til lántöku. Þess vegna hækkuðu lán einstaklinga, drifin áfram af gríðarlegu fjármagni sem bankar sóttu til útlanda og Íbúðalánasjóður sótti í krafti ríkisábyrgða sinna.
Það var eins og menn tryðu því að svona gengi þetta endalaust. En nú er sagan öll - í bili að minnsta kosti. Eignirnar eru teknar að rýrna, eftir bóluna sem verðhækkun síðustu mánaða hefur verið.
Á sama tíma berast fréttir af stórhækkun byggingakostnaðar. Þeirri hækkun verður nú ekki lengur velt út í verðlagið. Framlegðin sem menn áður nutu við byggingariðnaðinn dregst saman. Markaðurinn sendir sín skýru boð og áhuginn á að framleiða húsnæði minnkar. Þannig dragast seglin saman.
Við erum þó fjarri allri kreppu eða samdrætti. En þetta eru skýrar vísbendingar um minnkandi þenslu og augljóst að á þessu mikilvæga sviði stefnir nú til jafnvægis. Það er afskaplega mikilvægt. Við þurfum á því að halda að þetta mikla fóður spennunnar í efnahagslífinu sem byggingaþenslan var, dragist nú heldur saman. Spennan er því greinilega í rénun eins og Greiningardeild Landsbankans bendir á í dag. "Það virðist því vera að draga úr þeirri umframeftirspurn sem einkennt hefur fasteignamarkaðinn undanfarin misseri", segir í skrifum deildarinnar í dag. Það eru orð að sönnu og raunverulegt fagnaðarefni.
13.11.2006 | 20:27
Það er gott að búa á Íslandi
Ímyndum okkur að við hlustuðum á svartagallsrausið um íslenskt þjóðfélag daginn út og inn - og tryðum því öllu. Við okkur myndi ekki blasa falleg mynd. Hún væri eitthvað á þessa leið: Allt er á leið til glötunar og stjórnvöld önnum kafin við samsæri gegn almenningi í landinu. Lífskjör slök, litlu fé veitt til almannaheilla og stjórnvöldin spillt og ómöguleg. Samkvæmt svartagallsrausinu fer heimur hér mjög versnandi.
En sjáum nú til.
Í nýjasta hefti breska blaðsins Economist birtast fróðlegar tölulegar upplýsingar, sem eru svartagallsrausinu eins konar kjaftshögg. Annars vegar er vitnað í skýrslu um lífsgæði í heiminum og hins vegar greint frá skýrslu um spillingu stjórnvalda í veröldinni.
Human development report greinir frá því að á Íslandi séu lífsgæði næst best í heiminum. Einungis velferðar og olíuframleiðslulandið Noregur tekur okkur fram. Mælikvarðarnir sem liggja til grundvallar eru hvaða lönd veita þegnum sínum, bestu lífskjörin og innihaldsríkasta lífið og hvar langlífi er mest. Til grundvallar liggja mælikvarðar á borð við menntun, lífskjör og og langlífi. Næst okkur eru Ástralía, Írland, Svíþjóð, Kanada, Japan og Bandaríkin. Enn lengra fyrir aftan okkur eru lönd sem eru einskonar burðarásar Evrópusambandsins, Bretland, Þýskaland og Frakkland.
Og lítum þá á aðra mælikvarða. Að þessu sinni um spillingu. Alþjóðleg stofnun, Transparancy International leggur mat á spillingu í heiminum. Ísland ásamt með Finnlandi og Nýja Sjálandi skara fram úr vegna lítilliar spillingar stjórnvalda. Frændur okkar og vinir Danir eru í fjórða sæti, sem sé á eftir okkur. En skemmst er að minnast gagnrýni frá dönsku dagblaði á viðskiptalíf okkar. Þar fyrir aftan koma svo Singapore, Svíþjóð og Sviss.
Þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Og sannarlega stangast þær mjög á við síbyljuna sem stundum heyrist í almennri umræðu hér á landi. Það er líka stundum svo að menn þurfa að skoða hlutina úr fjarlægð og í ákveðnu alþjóðlegu samhengi. Þá sjá menn kannski að þótt sitthvað megi og beri að bæta hér á landi, þá stöndumst við afskaplega vel hinn alþjóðlega samanburð. Það sýna þessar tvennu skýrslur, sem nú er verið að fjalla um í alþjóðlega viðurkenndu tímariti, sem þekkt er fyrir flest annað en að fleipra eða styðjast við hæpin gögn.
11.11.2006 | 15:09
Við kjósum alla í sama sætið!!
Þetta er tíð prófkjörsbaráttunnar. Auglýsingar eru snar þáttur slíkrar baráttu og oftar en ekki sjáum við lista stuðningsmanna frambjóðenda á heilum síðum dagblaðanna. Kannski er það sumpart vegna forvitni og sumpart í bland við dálitla hégómagirnd að maður rennir augunum yfir listana. Hverjir styðja þennan nú þennan frambjóðanda og hverjir einhvern annan? Þekki ég einhvern á myndunum?
Í gærkveldi las ég Fréttablað dagsins og þar voru tvær heilsíðuauglýsingar frá jafnmörgum frambjóðendum í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, Steinunni Valdísi á bls 3 og Helga Hjörvar á bls 9. Þau eiga það meðal annars sameiginlegt að sækjast bæði eftir 4. sæti - sumsé sama sæti - í prófkjörinu.
Í einni sjónhending renndi ég augunum yfir síðu Steinunnar og lagði því næst í síðu Helga Hjörvar. Aldurinn er sannarlega farinn að setja mark sitt á mig og því þótti mér ástæða til þess að lesa betur. Því skyndilega blasti við að ýmislegt sama fólkið lýsti yfir stuðningi við Helga Hjörvar á bls. 9 og hafði ljáð Steinunni Valdísi stuðnings sinn sex blaðsíðum fyrr; og það í sama sætið, fjórða sætið ! Ætli þetta verði ekki að teljast nokkuð afrek í staðfestu. Þarna kom ég auga á, án nokkurrar vísindalegrar yfirlegu, gamlan og ákaflega viðkunnanlegan vinnufélaga minn af Vísi, Hallgrím H. Helgason og Aðalstein Helgason lektor við HR. Þeir lýstu yfir stuðningi við báða í sama sætið, fjórða sætið.
Og síðan sá ég heilar fjölskyldur birtast í einstökum auglýsingum; mínir ágætu sveitungar Grímur Atlason bæjarstjóri í heimabæ mínum og kona hans Helga Vala frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV kjördæmi var mætt á síðu Helga Hjörvar ásamt bróður sínum, fyrrnefndum Hallgrími. Og þar var líka mætt til leiks Soffía Vagnsdóttir frænka mín og forseti bæjarstjórnar í Bolugnarvík. Skilaboðin sumsé skýr; bolvískir samfylkingarmenn kjósa Helga Hjörvar.
Og svo eitt að lokum. Þarna var einnig mætt Guðrún Ásmundsdóttir leikkona, frambjóðandi Frjálslyndra í borgarstjórnarkosningum, sem að sögn Morgunblaðsins var sérstakt leynivopn flokksins. Ætli hin nýja stefna Frjálsyndra í innflytjendamálum hafi hrakið hana úr þeim herbúðum?
10.11.2006 | 11:29
Ritstjórinn sem les ekki blaðið sitt
Ritstjórar blaðanna mæðast í mörgu. Og það er sýnilega nóg að gera á Blaðinu. Ritstjórinn Sigurjón M. Egilsson hefur það hlutverk með öðru að skrifa leiðara blaðsins og ferst það misvel úr hendi, eins og gengur. Leiðarinn hans í dag er hins vegar dæmafár. Ekki fyrir skoðanirnar sem þar eru settar fram. Hann verður auðvitað að bera ábyrgð á þeim. Hitt er verra að leiðarinn ber það með sér að skrifarinn sem er í haus blaðsins skráður ábyrgðarmaður þess, hefur bersýnilega ekki kynnt sér efni blaðs síns áður en hann settist að tölvu sinni við leiðarskrifin.
Það er öllu lakara. Af því að með því að lesa sitt eigið blað hefði hann getað afstýrt sjálfum sér frá dellumakaríinu sem hraut úr tölvubendlunum í dag.
Hann er pirraður út í hvalveiðar og ekkert um það að segja í sjálfu sér. En pirringurinn í dag, stafar af því að hann heldur að ríkisvaldið hyggist standa í sölu á hvalaafurðum. Þetta hefði hann getað sparað sér með því að lesa frétt í eigin blaði á bls 12. Þar er greint frá því að aðkoma sjávarútvegsráðuneytisins að málinu felist í því að samræma reglugerðir á milli landa; búa til leikreglur fyrir atvinnugreinina. Nokkuð sem er hið daglega brauð ráðuneyta. Hlutverk stjórnsýslu er að marka ramma. Það er verkefni sjávarútvegsráðuneytisins í þessu máli.
Sá sem vinnur og verkar hvalinn sér síðan um að selja afurðirnar og ber á því fjárhagslega ábyrgð. Nákvæmlega eins og í öðrum viðskiptum. Flóknara er það mál nú ekki. Þetta kemur líka fram í fréttinni í viðtali við forstjóra Hvals hf.
En Sigurjón Magnús er í þessu máli eins og kallinn sem varð fyrir því að hjá honum sprakk dekk skammt frá bóndabæ og reyndist vera tjakklaus. Í pirringnum talaði hann sjálfan sig upp í að engrar aðstoðar væri að vænta á bænum við dekkjaskiptin. Og þegar hann bankaði upp á, stundi hann ekki upp bón um aðstoð, en hellti sér þess í stað yfir bóndann, sem stóð blásaklaus á bæjarhlaðinu.
Ritstjórinn er eins og bílstjórinn saltvondi og tjakklausi, en lesendur blaðsins eru í hlutverki hins steinilostna bónda á bæjarhlaðinu.
En sá sem þessum tölvubendli stýrir getur bara gefið ritstjóranum snakilla eitt ráð og það er þetta: Lestu blaðið þitt oftar áður en þú sest niður við leiðaraskrifin. Það gæti forðað þér frá vandræðagangi - a.m.k. stöku sinnum.
5.11.2006 | 22:47
Endurnýjun á Alþingi síðustu 10 kosningar
Fréttir um helgina hermdu að endurnýjun í þingliði yrði að öllum líkindum meiri en oft áður. Litið var til niðurstöðu skoðanakönnunar Capacent Gallup og reiknað út frá því hver væri líkleg endurnýjun í þingmannahópnum bak næstu alþingiskosningum. Það verður auðvitað að setja fyrirvara um svona samanburð. Skoðanakannanir nú hálfu ári fyrir kosningar hafa vitaskuld ekki forspárgildi og margt getur breyst á svo löngum tíma. Engu að síður er fróðlegt að velta þessu upp, út frá könnuninni. En þá verða menn einfaldlega að muna að við erum að bera saman skoðanakönnun og úrslit alþingiskosninga fyrir þremur og hálfu ári.
En eins og ég hef áður bent á hér á þessum vettvangi þá er mikil og stöðug endurnýjun í gangi við hverjar alþingiskosningar hér á landi. Það er þess vegna þess virði að skoða staðreyndir um þessi mál. Í Handbók Alþingis sem gefin er út að loknum Alþingiskosningum hverju sinni getur að líta afskaplega fróðlega töflu sem bregður ljósi á þessa þróun. Í töflunni er reiknað út hlutfall nýrra þingmanna á Alþingi allt frá árinu 1934. Skráður er fjöldi nýkjörinna alþingismanna eftir hverjar almennar kosningar, hvort sem þeir höfðu setið sem varamenn áður eða setið einhvern tímann áður á þingi.
Lítum á upplýsingar úr þessum mikla fróðleiksbrunni, sem Handbók Alþingis er og skoðum endurnýjun á Alþingi síðustu tíu alþingiskosningar, eða frá árinu 1971:
1971 31,7% eða 19 þingmenn
1974 25,0% eða 15 þingmenn
1978 35,0% eða 21 þingmaður
1979 30,0% eða 18 þingmenn
1983 23,3% eða 14 þingmenn
1987 33,3% eða 21 þingmaður
1991 39,7% eða 25 þingmenn
1995 30,2% eða 19 þingmenn
1999 23,8% eða 15 þingmenn
2003 28,6% eða 18 þingmenn
Hér þarf að hafa í huga að þingmönnum fjölgaði úr 60 í 63 við kosningarnar árið 1987, en þá var gerð breyting á lögum um kosningar til Alþingis í kjölfar stjórnarskrárbreytingar.
Þessar tölur segja sitt. Gjarnan hafa breytingarnar numið nálægt fjórðungi eða um þriðjungi þingmanna og þaðan af meira. Sé þetta árabil svo reiknað til meðaltals, má segja að 30% þingmanna hafi verið nýir við hverjar kosningar sé litið yfir tímabil síðustu 10 alþingiskosninga. Meðaltalið á þessum tíu árum svarar svo til þess að á milli 18 og 19 þingmenn komi nýjir á til þings við hverjar kosningar. Það er því óhætt að segja að þessi tími endurspegli miklar breytingar á þingmannaskipaninni
4.11.2006 | 10:48
Kemur-mér-ekki-við-pólitíkin
Það er hárrétt sem Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður (mig minnir raunar að hún vilji láta kalla sig alþingiskonu) bendir á í grein í Blaðinu í dag. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til þess að víkja sér undan afstöðu í stórum málum vegna þess að kjósendur eigi að gera upp þessi mál í almennri atkvæðagreiðslu.
Þetta er ekki sagt af tilefnislausu. Í Fréttablaðinu um daginn var viðtal við frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi - Kraganum - þar sem þeir voru spurðir um afstöðu sína til stækkunar Ísalverksmiðjunnar í Hafnarfirði. Ótrúlega margir sögðu pass. Gefum ekki upp afstöðu. Fólkið í Hafnarfirði á að útkljá þetta í atkvæðagreiðslu.
Þarna kristallast einmitt háski þjóðaratkvæðagreiðslna, sem ég hef áður bent á og er vel þekktur. Stjórnmálamenn sem eru hræddir við að tjá afstöðu sína vísa óþægilegum ákvörðunum frá sér og inn í þjóðaratkvæði og almennar atkvæðagreiðslur. Kemur -mér- ekki- við -pólitíkin. Og hverjar verða afleiðingarnar?
Skil í stjórnmálum verða óljósari. Kjósendur eiga erfiðara með að gera sér grein fyrir hver afstaða flokka og frambjóðenda er. Línurnar verða óskýrari og kostirnir liggja ekki eins beint við þegar fólk þarf að gera upp hug sinn í kosningum. Með öðrum orðum. Þótt þjóðaratkvæðagreiðslur og almennar atkvæðagreiðslur sé vel meintar og hafi lýðræðisviljann að vopni, geta þær leitt fram algjöra andhverfu lýðræðisins.
Við þekkjum dæmi af þessu úti í hinum stóra heimi. Það eru víti sem við eigum að varast. Stjórnmálamenn eiga að hafa skoðun og móta sér afstöðu. Þingmannsefni í Suðvesturkjördæmi geta ekki leyft sér að sneiða hjá máli eins og álversframkvæmd í kjördæminu; jafnvel þó að um þau verði greidd atkvæði í héraði. Eða dettur einhverjum í hug að þingmenn eða sveitarstjórnarmenn hafi raunverulega ekki skoðun á stórum málum af þessu tagi?
Hugmyndir um almenna atkvæðagreiðslur um einstök mál eru oft ræddar. Þær geta átt vel við í tilteknum tilvikum. En við megum ekki gera þær að meginreglu. Þá er nefnilega hætt við að tilvikunum fjölgi sem Þórunn Sveinbjarnardóttir bendir á í grein sinni í dag og skoðanalaust fólk fylli bekki þings og sveitarstjórna.
30.10.2006 | 22:04
Nýtt upphaf á sunnanverðum Vestfjörðum
Menntun er algjört grundvallaratriði í nútíma samfélagi. Hreinn lykill að framtíðinni. Samfélagið verður stöðugt flóknara og krefst æ meiri sérþekkingar. Án hennar dragast menn aftur úr. Menntunin er afl nýrra hugmynda og raunar sjálfsagður þáttur í samfélagi okkar.
Menntunarstigið hækkar líka ár frá ári. Einu sinni var gagnfræðaprófið mikilvægt markmið ungs fólks, með framhaldsskólabyltingunni opnuðust nýjar leiðir. En þessu var misskipt. Aðgengið hefur ekki verið nægjanlega gott alls staðar, þó vissulega hafi gríðarlega margt verið gert til þess að auka það. Opnun nýrra framhaldsskóla víða um land og auknar fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar eru dæmi um að samfélagið hefur góðan skilning á því að ungu fólki sé gefinn kostur á því að njóta þess námsframboðs sem framhaldsskólanámið felur í sér.
Nýjasta dæmið er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, að leggja til við Alþingi að leggja fram fjármuni svo að unnt verði að opna framhaldsskóladeild í Vestur Barðastrandasýslu í tengslum við Fjölbrautarskóla Snæfellinga, Grundarfirði. Verður deildin staðsett á Patreksfirði. Þetta er hrein bylting.
Tölur sýna að ríflega 40 prósent nemenda í árgangi á sunnanverðum Vestfjörðum ljúka ekki námi í framhaldsskólum. Þetta er langt umfram meðaltal í landinu öllu og allsendis óviðunandi. Fyrir vikið stendur ungt fólk á svæðinu höllum fæti þegar út í lífið kemur þar sem náms og skipulagðrar þekkingar er krafist.
Þess vegna var svo brýnt að auka námsframboðið á sunnanverðum Vestfjörðum. Allir geta sett sig í þau spor að þurfa að senda börn sín burtu um langan veg til náms, 16 ára gömul. Þessu fylgir gríðarlegt álag á fjölskyldur, auk þess fjárhagslega kostnaðar sem fylgir því. Álag á 16 ára ungmenni sem fer að heiman svo ungt er líka mikið. Allt þetta gerir það að verkum að við eigum að nefna það óviðunandi ástand og breyta því.
Heimamenn lögðu líka á þetta höfuðáherslu og undirbjuggu málið fel. Það var lykillinn að árangri sem nú er að líta dagsins ljós.
Enginn vafi er á því að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu framhaldsskólanáms á Patreksfirði mun breyta gríðarlega miklu og njóta almenns stuðnings. Áhrifin á samfélagið verða líka strax skýr. Árgangar ungs fólks sem áður fóru burtu munu setja svip sinn á Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Fólk sem ekki hefur notið framhaldsskólamenntunar mun nýta sér hið nýja námsframboð. Þannig verður samfélagið fjölþættara, sterkara - og það sem einnig skiptir máli - skemmtilegra. Ákvörðunin á dögunum var hárrétt og hún var þýðingarmikil.
Upphaf nýs skólaárs á komandi hausti verður merkisdagur í Vestur Barðastrandasýslu og markar nýtt upphaf. Hamingjuóskir fylgja hinni nýju skólastarfsemi á Patreksfirði í þágu íbúa Vestur Barðastrandasýslu.