Í fiskimannaþorpum suður í Cornwall

IMG_1015Ég hef verið fjarri bloggheimum um hríð; nú síðast vegna vikulangs sumarfrís í Englandi. Við hjónin ákváðum að fara í sumarleyfi út fyrir landsteinana; nokkuð sem við ella höfum treglega gert endranær. Fórnuðum þar með íslenskum sólardögum og fögrum sumarnóttum og tókum meira að segja áhættuna af því að fara til Englands, sem plagað hefur verið af stanslítilli úrkomu í sumar. Vætan hefur verið þreföld á við það sem meðaltölin segja, sá ég í einhverjum fjölmiðlunum úti.

Þó við séum ágætlega kunnug í Bretlandi höfðum við aldrei komið á Cornwallskagann og þangað héldum við hjónin ásamt mágkonu minni og svila. Það var mikið ævintýri. Komumst alla leið til Landsend, sem er vestasti hluti Englands og heimsóttum einnig syðsta hluta landsins, þar sem heitir í Lizard Héldum okkur einkanlega í gömlu fiskimannabæjunum og sjávarþorpunum við ströndina, sunnan og norðanmegin á Cornwallskaganum.

Sjávarútvegurinn er ekki nema svipur hjá sjón þess sem áður var. Ferðaþjónustan er hins vegar þeim mun öflugri; og það lika núna þrátt fyrir votviðrið. Vorum raunar sjálf ágætlega heppin með veður. Rigningin sem brast á einhverja dagana var ekkert úrhelli og auðveldur leikur að klæða hana af sér.

Þó sjávarútvegurinn sé óvíða áberandi í þessum gömlu verstöðvum þarna suður frá, angar sagan af alls konar minnum frá þessari gengnu tíð. Ekki þar fyrir, bátar voru í höfnunum og maður varð var við að sjávarútvegurinn skiptir enn máli. Í stöku höfnum mátti líka sjá öfluga báta sem gerðir voru út á fjarlægari mið. Víðar voru það þó litlir bátar, sem stunduðu ekki síst gildruveiðar á krabba og skelfiski.

En ferðamennskan er tvinnuð mjög saman við sjóinn, sjávarfangið og fiskveiðarnar. Veitingstaðirnir leggja áherslu á að bjóða fram fiskmeti af öllu tagi. Þeir eru gjarnan staðsettir ofan við hafnirnar svo að við gestirnir gætum notið útsýnis yfir sjóinn; sæjum bátana og lífið sem þeim fylgir. Rétt eins og nálægðin við hafið og fiskimiðin var forsenda byggðanna þarna fyrrmeir má segja að nærveran við sjóinn sé forsenda ferðaþjónustunnar núna.

Þessir litlu bæjir og þorp eru þannig uppbyggðir að byggðin er afskaplega þétt. Litlar, þröngar og krókóttar götur liðast upp frá höfninni og húsin setja skemmtilegan og sjarmerandi svip á umhverfið. Allt öðruvísi en í gömlu þorpunum okkar, þar sem rýmra var í kring um húsin, hvort sem þau stóðu á sjávarkambinum eða upp af honum. Maður gat að minnsta kosti ekki séð að þarna suður í fiskiþorpunum í Cornwall hefðu menn haft skepnur sér til viðbótarframfæris, eins og við þekkjum hér heiman að.

Og aldrei er það svo að maður læri ekki eitthvað af svona ferðalögum. Mér gæti komið ýmislegt í hug núna, en ætla bara að nefna eitt að sinni. Getum við ekki reynt að spinna betur saman ferðaþjónustu okkar, sem vex svo hratt og aðra atvinnustarfsemi, staðsett ferðaþjónustuna nær iðandi lífi sjávarbyggðanna okkar svo að þeir 500 þúsund erlendu ferðamenn sem brátt munu koma til landsins geti fengið að njóta þess. Við erum komin lengra á leið með þetta hvað varðar tengslin við sveitir landsins. Og þó stöku vísi megi finna í sjávarþorpunum okkar að einhverju viðlíka, hljóta að vera meiri tækifæri til slíks fyrir dugmikla einstaklinga við sjávarsíðuna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband