Hráskinnaleikur með húshitunarkostnaðinn

 

Ríkisstjórnin og stjórnarliðar leika núna mikinn hráskinnaleik með húshitunarmálin á hinum svo kölluðu „köldu svæðum“. Núna, kortéri fyrir kosningar, eru lagðar fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið um 175 milljónir króna, til hækkunar á liðnum niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði. Að öðru óbreyttu ætti þetta að vera tilefni til þess að fagna fyrir þann tíunda part landsmanna sem býr við mesta húshitunarkostnaðinn. En þannig er það ekki. Því miður.

olafsvik Ólafsvík. Íbúar þar og annars staðar á svo kölluðum "köldum svæðum", hafa fengið sérstakan reikning frá stjórnarliðum sem svarar tveggja til þriggja mánaða hærri húshitunarkostnaðar.

Skoðum aðeins samhengið.

Á þessu kjörtímabili hafa fjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði lækkað um 530 milljónir króna á föstu verðlagi. Þetta þýðir á mæltu máli; hækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur fyrir. Lækkun þessa fjárlagaliðar er mun meiri en sem svarar þeirri hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið almennt á fjárlögunum.

Nærri lætur að um 30 til 35 þúsund einstaklingar búi við hinn mikla húshitunarkostnað; búi á því sem kallað hefur verið „köld svæði“. Þannig má segja að íbúar köldu svæðanna hafi fengið reikning frá ríkisstjórnarflokkunum fyrir upphæð sem amk. svarar aukreitis kyndingarkostnaði til tveggja eða þriggja mánaða! 

En ekki er nóg með þetta. Við fjárlagaafgreiðsluna var ákveðið að krefja orkufyrirtækin sem þjónusta þessi svæði, RARIK og Orkubú Vestfjarða, um arðgreiðslur upp á 370 milljónir króna á næsta ári. Þetta er meira en helmingi hærri upphæð en nemur viðbótarframlögunum til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem nú var ákveðin og stjórnarliðar kunnu sér ekki læti yfir.

Það má því segja að með þessum tveimur ákvörðunum, hækkun niðurgreiðslna og stóraukinni arðgreiðslu, hafi stjórnarflokkarnir ákveðið að taka tvöfalt hærri upphæð af íbúum köldu svæðanna en þeir njóta með viðbót til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði. Svo voga stjórnarliðar sér að hælast um yfir framferði sínu.

4b1ad186b8b868cc15a35a25844213af Í fjárlögunum er sýndarupphæð til lækkunar á húshitunarkostnaði, sem tekin er til baka og tvöfalt það með öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Með ákvörðuninni um arðgreiðslur frá RARIK og Orkubúinu, er ríkisvaldið, með tilstyrk þingmanna stjórnarliðsins að taka ákvörðun um að hækka orkuverð á hinum köldu svæðum. Sýndarmennskutillaga um auknar niðurgreiðslur upp á helmingi LÆGRI upphæð, kemur ekki í veg fyrir það. Orkufyrirtækjunum verður nauðugur einn kosturinn að velta þessum aukna kostnaði vegna arðgreiðslnanna út í verðlagið. Hafi þau burði til þess að taka þennan kostnað á sig án þess að það skili sér til viðskiptavina sinna í formi verðhækkana, er það vísbending um að óbreyttu hefðu þau getað lækkað orkuverðið að óbreyttu.

Það er auðvitað gróflega dapurlegt að verða vitni að svona sýndarmennsku. Stjórnarliðar sáu sitt óvænna að sýna einhvern lit, með hærri niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar. Kosningar eru í nánd og staða stjórnarflokkanna er ekki góð. En á sama tíma taka þeir hinir sömu ákvörðun um að hlaða á orkufyrirtækin á landsbyggðinni kostnaði upp á rúmlega helmingi hærri upphæð, sem lendir á herðum almennings og atvinnufyrirtækja.

Þarna er verið að sýna hug sinn í verki.

 


Þora ekki, geta ekki, vilja ekki

 

Stjórnarliðar kveinka sér mjög undan því að rætt sé efnislega um fjárlagafrumvarpið. Það þarf ekki að koma á óvart.  Það er auðskiljanlegt að ábyrgðarmenn þessa máls telji óþægilegt að ræða þetta mál svo vanbúið sem það er á alla lund. Þetta eru blekkingarfjárlög, byggð á veikum grunni. Stjórnarliðar hafa bersýnilega ákveðið að láta skeika að sköpuðu og ætla nýjum stjórnvöldum, eftir alþingiskosningar í vor, um að taka á þeim vandamálum sem  hin nýju fjárlög takast ekki á við.

4b1ad186b8b868cc15a35a25844213af Fjárlagaumræðan skilur nú þegar eftir fjölda spurninga sem ekki hefur verið svarað. Ábyrgðarmenn málsins hafa augljóslega ekki treyst sér til þess að svara þessum spurningum.

Umfjöllun Steingríms J. Sigfússonar um fjárlagaumræðuna er hins vegar í meira lagi hjákátleg.

Umræðan skilur nú þegar eftir fjölda spurninga sem ekki hefur verið svarað. Ábyrgðarmenn málsins hafa augljóslega ekki  treyst sér til þess að svara þessum spurningum. Þeir vita vitaskuld innst inni að nú er verið að undirbúa kosningafjárlög, með alls konar fyrirheitum, sem öðrum verður látið eftir að fjármagna.

Það voru greinilega samantekin ráð að mæta því ekki til umræðunnar. Og ráðherrarnir- sem vel að merkja eru einnig þingmenn – strituðust við að þegja. Þeim er þó ætlunin að framkvæma fjárlögin, sem við blasir að munu setja fjölda mikilvægra stofnana í fullkomið uppnám.

Það er þó ekki þannig að stjórnarliðar hafi ekki átt þess kost að taka þátt í umræðunni. Sannleikurinn er hins vegar sá að þeir hafa ekki treyst sér í umræðuna; þeir hafa hvorki þorað, getað né viljað. Flóknara er það nú ekki.

Á þessu eru fáeinar undantekningar. Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar, fór í nokkur andsvör í upphafi umræðunnar og sama gerði Lúðvík Geirsson. Annars er þeirra framlag til umræðunnar það helst að hafa orðið sér til skammar frammi fyrir alþjóð, með dæmalausu framferði sínu. Eftir það varð allt loft úr þeim og gildir um þá það sem  segir í fornsögunum; segir ekki frekar af þeim. Sigmundur Ernir Rúnarsson fór einnig í fáein andsvör. Það var alltof sumt.

Sá eini  sem eitthvað lét að sér kveða í umræðunni, var hinn kunni stjórnarliði Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Og hvað hafði hann um málatilbúnað ríkisstjórnarinnar að segja? Það má segja að hann hafi rammað inn álit sitt á fjárlagafrumvarpinu, í andsvörum við mig,eftir að ég hafði meðal gagnrýnt harðlega meðferðina á þremur háskólastofnunum. Um þetta sagði Jón Bjarnason:

jon Jón Bjarnason segir fjárlagagerðina byggjast á fádæma fávisku

„Ég harma það að þær tillögur sem að nú liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu varðandi þessar stofnanir eru með öllu óviðunandi og sýna fádæma fávisku um þá starfsemi sem þarna á sér stað með þeim niðurskurði sem þar er viðhaldið.“

Þetta var það síðasta sem heyrðist frá stjórnarliðum um fjárlagafrumvarpið. Síðasta andvarpið, hingað til sem heyrðist úr stjórnaráttinni, var sem sagt að lýsa því yfir að fjárlagafrumvarpið væri byggt á fávisku.

Þá vitum við það.

 

 

 

 


Ríkisstjórnin er nakin eins og keisarinn í ævintýrinu fræga


Þegar fjallað er um skuldastöðu heimilanna og frammistöðu ríkisstjórnarinnar á þeim vettvangi, kemur undir eins upp í hugann fræga ævintýrið hans HC Andersens um Nýju fötin keisarans. Rétt eins og keisarinn  í sögu Andersens er ríkisstjórnin berstrípuð  þegar metinn er árangur hennar í skuldamálum heimilanna.

kejserens-nye-klder Þegar kemur að skuldamálum heimilanna er ljóst orðið að ríkisstjórnin er álíka stödd og keisarinn í ævintýrinu fræga.

Ekki vantar neitt upp á yfirlýsingarnar frá stjórnarliðum um dugnað og afrekin varðandi vanda skuldugra heimila. Frægur er orðin að endemum orðaleppurinn um skjaldborgina sem átti að slá um heimilin. Það voru fyrstu orðin sem féllu frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, við stjórnarmyndunina.

En hver er árangurinn? Hverjar eru efndirnar? Hver er sannleikur málsins?

Svar við fyrirspurn sem ég lagði fram til atvinnu og nýsköpunarráðherra varpar ljósi á sannleikann í þessu máli.

Meginefni svarsins var að alls hafi skuldir heimilanna lækkað um 200 milljarða króna frá haustdögum 2008. Af þeirri upphæð, stafa um 150 milljarðar frá því að gengisbundin lán voru dæmd ólögleg. Það skýrir sem sagt 75% skuldalækkunarinnar. Þessi lán mátti því ekki innheimta. Það stóð ekki á bak við þau sú upphæð sem tilgreind var í lánapappírunum. Þess vegna voru þau lækkuð alls um 150 milljarða. Flóknara er það nú ekki.

Nú hafa verið í gangi í þrjú ár þær aðgerðir sem í rauninni má kalla hina meintu skjaldborg. Þetta eru leiðir eins og 110% leiðin svo kallaða, sértæk skuldaaðlögun og sitthvað annað. Til þessa verkefnis hefur verið varið milljörðum króna úr ríkissjóði í stjórnsýslu og umsýslukostnað. Árangurinn er að skuldalækkunin nemur 50 milljörðum. Lang stærstur hluti þessarar upphæðar eru lán sem alltaf blasti við að myndu ekki innheimtast af því að upphæðin er umfram matsverð eignanna sem voru að veði.

Þessi skuldalækkun er um 25% heilarupphæðarinnar sem afskrifuð hefur verið af heimilunum. Með öðrum orðum, lítið brot af heildarupphæðinni. Þetta er sem sagt allt afrekið.

Svo voga stjórnarliðar sér að hreykja sér af árangri og taka með í þann reikning, skuldir, sem voru í rauninni aldrei raunverulegar skuldir, heldur ólöglegar upphæðir, sem dómstólar sáu um að lækka. Ríkisstjórnin átti þar engan hlut að máli.

Þess vegna er ríkisstjórnin eins og keisarinn, sem hæddur hefur verið öldum saman fyrir að vera ekk í neinum fötum. Hann var berstrípaður í sögunni hans HC Andersens;  rétt eins og ríkisstjórnin er berstípuð þegar kemur að skuldamálum heimilanna.

Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum hefur komið í ljós að ríkisstjórnin getur ekkert, en lætur sér duga að hreykja sér af árangri sem hún á engan þátt í. Það er lítilmótlegt en hæfir mjög vel svo lítmótlegum stjórnvöldum.


Við erum stödd í gamalkunnum vítahring

 

Við virðumst vera að festast inni í gamalkunnugum skrúfgangi; vítahring, eins og það var svo oft kallað. Verðbólgan er ekki á niðurleið og hefur ekki verið hærri frá því í júlí. Gengi krónunnar hefur lækkað mikið frá því í sumar og nú er henni spáð frekari lækkun. Og komið er upp ákall um launahækkanir, til þess að spyrna við kaupmáttarþróun, sem aftur er afleiðing verðbólgu og hærra innflutningsverði vegna lægra gengis krónunnar.

peningar Við erum að festast í gamalkunnugu ástandi. Verðlagshækkanir, stöðnun,gengisfellingar. Þetta kallar ríkisstjórnin árangur

Svona var ástandið einmitt á verðbólguárunum. Víxlverkun launa og verðlags, var það kallað og allir vissu hvað það þýddi. Fyrst hækkaði verðlagið og þá var samið um hærri laun. Það þoldi atvinnulífið ekki, gengið féll og kaupmátturinn skilaði sér ekki. Þá hófst sama hringekjan og síðan koll af kolli.

Það sem er hins vegar svo alvarlegt núna, ofan í þetta allt saman, er að hagkerfið vex sáralítið. Það sem eitthvað mælist í þeim efnum, er að mestu leyti vegna tímabundinnar aukningar á einkaneyslu.

Lækkun gengisbundinna lána vegna ógildingar þeirra fyrir dómstólum, hafði þessi áhrif á einkaneysluna. Einskiptisaðgerð í formi sérstakra vaxtabóta, jók þessa einkaneyslu líka tímabundið. Og áhrif launahækkana sem ekki verða viðvarandi höfðu sömu áhrif.

Nú sjáum við merki um aðra þróun einkaneyslunnar. Mjög dregur úr vexti hennar.  Fjárfesting er alltof lítil. Það er einmitt fjárfesting sem getur skapað hér raunveruleg verðmæti og stækkað kökuna sem til skiptanna er.

Gríðarlegar skuldir ríkissjóðs, sem stjórnvöld hafa engin tök á, skuldir annarra opinberra aðila og viðkvæm staða munu gera það að verkum að gengið mun ekki styrkjast. Enda gerir enginn spáaðila ráð fyrir því. Það mun lita kaupmáttinn í framtíðinni.

Ríkisstjórnin kallar þetta árangur. En almenningur veit betur. Þessi árangur sem fólkið í fílabeinsturninum, ríkisstjórnarliðið, sífrar um, er hvergi finnanlegur nema í kollinum á þeim sjálfum. Hugarburður og blekking á kosningavetri, er lélegt veganesti handa  almenningi, sem veit betur og lætur ekki fífla sig með svona innistæðulausu hjali.


Kunnugleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar

 

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar varðandi fyrirhugaða skattlagningu á ferðaþjónustuna eru óskaplega kunnugleg. Fyrst er hent fram vanhugsaðri hugmynd að skattlagningu ( eins og svo oft áður). Svo er brugðist við gagnrýni með því að setja á laggirnar starfshóp um málið ( eins og svo oft áður). Svo er ekkert hlustað á það sem þar er sett fram af þeim sem best þekkja til ( ekki frekar en áður) Og loks er kastað fram hugmyndum um heldur minni skattlagningu en áður hafði verið boðað og sagt að þar með sé komið til móts við gagnrýnina( eins og svo oft áður)

Sunnanverdir-Vestfirdir-2012-140 Við fossinn Dynjandi í Arnarfirði.14% skattahækkun á gistingu, kemur harðast niður á gistihúsum á  landsbyggðinni vegna takmarkaðs nýtingartíma og bílaleiguskatturinn er í rauninni skattur á ferðaþjónustu landsbyggðarinnar.

Þetta er sem sagt allt saman eftir bókinni. Illa undirbúin mál.Hugmyndir sem standast ekki skoðun og útfærslur sem ekki ganga upp. Í staðinn verða lögfestar breytingar sem valda miklu tjóni, en þó aðeins minna tjóni en ella hefði orðið.

Núverandi fjármálaráðherra, markaðssetti sig sem sérstakan vin ferðaþjónustunnar, þegar hún var ráðherra ferðamála. Nú sýnir hún vinarbragð sitt með því að hætta við stórkarlalegar og vanhugsaðar skattabreytingar, en kynnir í staðinn aðeins minna vonda tillögu, sem mun þó setja mörg ferðaþjónustufyrirtæki í mikinn vanda, draga úr aukningu á komum ferðamanna og skaða hagsmuni okkar þannig.

Ferðaþjónustufyrirtækin  hafa fyrir löngu selt ferðir og gengið frá verðsamningum. Nú munu þessar ferðir hækka um 14% og sá kostnaðarauki lenda á fyrirtækjunum, sem mörg hver ráða ekki við hann.

Og svo er það eitt annað.

Ríkisstjórnin boðaði líka auknar álögur á bílaleigufyrirtækin. Þær álögur munu sérstaklega lenda á landsbyggðinni. Áhrif skattahækkananna verða nefnilega þannig að bílaleigurnar hætta að bjóða ótakmarkaðan akstur, sem aftur dregur úr vilja og getu viðskiptavinanna  til þess að ferðast, nema um stutta vegalengd.

Ríkisstjórnin hyggst greinilega ekki hverfa frá þessari skattheimtu, en heldur henni til streitu.

Áhrifin  af  þessum breytingum verða sérlega skaðleg fyrir landsbyggðina: 14% skattahækkun á gistingu, kemur harðast niður á gistihúsum á  landsbyggðinni vegna takmarkaðs nýtingartíma og bílaleiguskatturinn er í rauninni skattur á ferðaþjónustu landsbyggðarinnar.

Eins og áður kjósa stjórnvöld að vega stöðugt  í sama knérunn og veikja atvinnulíf landsbyggðarinnar, rétt eins og fyrri daginn.


Atlaga forystu VG að Ögmundi geigaði

 

Atlagan að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í forvali VG í Suðvesturkjördæmi nú á laugardaginn geigaði og hann hafði sigur. Þetta var ekki nein venjuleg atlaga. Þar var á ferðinni sjálf forysta Vinstri grænna, sem hafði greinilega lagt mikið undir til þess að bægja Ögmundi Jónassyni frá sér. Það mistókst sem sagt.

ogmundur Gerð var bein atlaga af hálfu forystu VG gegn Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Það átti að ganga á milli bols og hjöfuðs á honum. Það mistókst.

Ögmundur orðar þetta „ganske pent“, eins og danskurinn segir. Á vef Ríkisútvarpsins er vitnað í hann með þessum hætti í óbeini frásögn: „Hann segir flokkinn og stjórnmálin ekki hafa farið varhluta af átökum síðustu ára“.

Þetta snyrtilega orðalag, er augljóst að skilja þannig að hann sé að vísa til þeirra átaka sem blasað hafa við hverjum manni innan VG; þar hafa hin breiðu spjót hvergi verið spöruð. Nú var gerð tilraun til þess að ganga á milli bols og höfuðs á Ögmundi, en það tókst ekki. Það þýðir ekkert fyrir forystu flokksins að reyna að þvo hendur sínar af því. Allir vita betur.

Þegar Sóley Tómasdóttir ritari VG, hvorki meira né minna, kýs að blanda sér í þennan slag, með beinum hætti og hvetur til þess að Ögmundi verði velt úr sæti sínu, þá liggur auðvitað mikið við. Skýrari verða skilaboðin tæplega frá forystu VG.

Annað sem vekur athygli í þessum prófkjörum VG nú um síðustu helgi, er að flokkurinn birtir ákaflega takmarkaðar upplýsingar um úrslitin. Sjálfstæðisflokkurinn birtir töflur sem sýna atkvæði efstu frambjóðenda í einstök sæti. Hjá VG sést ekkert slíkt.

Af hverju eru slíkar upplýsingar ekki birtar opinberlega? Hvað með allt gagnsæið, sem oft er talað um þegar mikið liggur við? Er hér eitthvað sem menn kjósa að líti ekki dagsins ljós.

 


Við ætlum að ná góðum árangri

 

Skipan fjögurra efstu sætanna á framboðslista okkar Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi, sem ákveðin var sl. laugardag, var fyrsta skrefið í kosningaundirbúningi okkar vegna alþingiskosninganna í vor. Ég er sannarlega ekki óhlutdrægur, en það er mín eindregna skoðun að við fjögur sem valin vorum í efstu sætin, getum orðið harðsnúin og öflug sveit. Og svo sannarlega ætlum við að ná góðum árangri og höfum til þess allar forsendur.

Mynd_1281404Fjórir efstu frambjóðendurnir. Talið frá vinstri: Haraldur Benediktsson, Eyrún Ingibjörg Sigþórdóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson, Sigurður Örn Ágústsson,  Ljósm. Skessuhorns HLH

Sjálfur er ég afar þakklátur fyrir það mikla traust sem mér var sýnt. Ég var sjálfkjörinn í fyrsta sæti listans. Það verður mikil áskorun að takast á hendur þetta mikilvæga verkefni, sem mér hefur verið trúað fyrir.

Meðframbjóðendur mínir eru gríðarlega öflugt og gott fólk, sem ég hlakka mjög til samstarfsins við. Þau Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri Tálknafirði og Sigurður Örn Ágústsson Geitaskarði í Langadal, eru öll mjög kraftmikið fólk sem er  þess albúið að takast á við verkefnin sín á næstunni.

Með svona góðum hópi eigum við að stefna að því að ná þremur mönnum á þing í kjördæminu í vor og það er svo sannarlega ætlun okkar.

Eftir áramótin kemur svo Kjördæmisráðs okkar sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi til þess að ganga endanlega frá framboðslistanum.

Ég hef fundið það í gær og í dag, að mjög margir hafa áhuga á að leggja okkur lið . Þar hafa meðal annars verið á ferðinni einstaklingar sem ekki hafa komið að pólitískri baráttu með okkur fyrr, eða setið á hinni pólitísku hliðarlínu um skeið. Nú stíga þeir fram og bjóða fram krafta sína. Við vitum nefnilega öll að mikið er í húfi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna í samfélaginu og leggja að baki okkar hin glötuðu ár, sem núverandi kjörtímabil hefur verið svo sannarlega verið. Til þess þarf stefnubreytingu.

Þreytuleg ríkisstjórnin lifir áfram frá degi til dags. Hennar erindi er fyrir löngu þrotið. Aðalsmerki hennar hafa verið þau að ganga á bak orða sinna og hún verið krýnd heimsmeistaratign í brigðum og svikum. Þessi dægrin dundar hún sér helst við tilraunastarfsemi á stjórnarskránni í stað þess að leysa þau mál sem aðkallandi eru fyrir fjölskyldurnar og atvinnulífið í landinu.

Verkefni okkar verða því ærin og brýn.

 


Kerfið malar allt í áttina frá landsbyggðinni

Þannig birtist veruleikinn okkur. Baráttan fyrir því að opinber störf séu staðsett utan höfuðborgarsvæðisins er sífelld og ströng. Karfið malar hins vegar allt í hina áttina. Opinber störf eru sett niður með býsna sjálfvirkum hætti á höfuðborgarsvæðinu, án þess að menn fái þar rönd við reist. Og jafnvel þau störf sem þegar hafa verið staðsett á landsbyggðinni, eru í sífelldri hættu gagnvart kröfum um að leggja þau niður eða flytja þau burt af landsbyggðinni.

Isafjord3 Á Ísafirði hefur lengi starfað Fjölmennignarsetur. Nú var gerð tilraun til þess að leggja þá starfsemi niður og flytja til Reykjavíkur

Þannig skrifa ég í grein sem hefur bírst á síðustu dögum í vefritum, sem nánar er gerð grein fyrir hér á heimasíðunni, undir dálknum greinar og ræður.

Þar greini ég frá tveimur dæmum um þetta, sem einmitt eru til meðferðar á Alþingi. Hvorug þeirra eru stór. Hvorug þeirra skipta sköpum í búsetuþróuninni, en þau bera þróuninni glöggt vitni.

Annað lýtur að fyrirætlunum um að setja á einhvers konar eftirlit með eftirlitinu á sviði innflutnings lækningatækja. Þetta eftirlit á að kosta rúmlega 40 milljónir og felur í sér að ráðnir verða til starfa fjórir nýjir starfsmenn í Lyfjastofnun.

Hitt lýtur að því að með stórhækkuðu veiðigjaldi ( sem útgerðir einkanlega á landsbyggðinni greiða) þarf að ráða álíka hóp til starfa hjá Fiskistofu í Hafnarfirði.

Á sama tíma er gerð atlaga að því að færa starfsemi Fjölmenningarseturs frá Ísafirði, þar sem það hefur starfað í um áratug með góðum árangri.

Þegar svona gerist, eins og rakið er hér að framan, þá telst það bara eðlileg afleiðing einhverrar lagasetningar, einhverrar þarfar sem þarf að uppfyggla. Þegar við hins vegar ákveðum að staðsetning þessara verkefna sé utan höfuðborgarsvæðisins, hefst þetta venjulega væl um að við séum að stunda kjördæmapot sem að þessu stöndum.


 

Þessa grein sem ég vitnaði í má lesa HÉR

 


 


Ólíkt hafast þeir að

 

Það væri fróðlegt fyrir þann stjórnarmeirihluta sem nú ræður á Alþingi að skoða sig aðeins um og velta fyrir sér hvernig aðrar þjóðir haga skipulagi sínu á sjávarútvegi. Þar er að sönnu ekki allt til fyrirmyndar og færa má rök fyrir því að þær þjóðir gætu sitthvað lært af okkur. En það breytir því ekki að gagnlegt væri fyrir okkar stjórnvöld að leita til þjóða sem gera góða hluti í sjávarútveginum og hafa farið í gegn um svipaða umræðu og hér hefur orðið á sjávarútvegssviðinu.

Flotinn í höfn í Bolungarvík Ríkisstjórnin keyrir sjávarútvegsmálin áfram  á grundvelli kreddusjónarmiða og án faglegs undirbúnings og setja grundvallaratvinnuveg okkar í fjötra óvissu.

Helgi Áss Grétarsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands, fjallaði um það í grein í Fiskifréttum hvernig Norðmenn hafa nálgast sína sjávarútvegsumræðu  og hvernig það er í hróplegu ósamræmi við það sem við þekkum hér.

Hér á landi hafa stjórnvöld leitast við að knýja fram mis gáfulegar breytingar á sjávarútveginum okkar í miklum ágreiningi. Hugmyndir sínar hafa þau lagt fram án þess að reikna út afleiðingarnar; hvorki fyrir einstakar byggðir, útgerðarform, kjör starsfólks í sjávarútvegi og hvað þá fyrir þjóðarhag. Þeir útreikningar, -að svo miklu leyti sem þeir hafa á annað borð verið framkvæmdir – hafa allir farið fram eftir á. Í öllum tilvikum hafa tillögur og frumvörp fengið falleinkunn. 0,0 í einkunn. Flóknara er það nú ekki.

En stjórnvöld sitja fast við sinn keip.

Í Noregi er ríkisstjórn systurflokka Samfylkingar og VG. Þar hugðu mennað breytingum á fiskveiðistjórnuninni. Ríkisstjórnin hafði sínar hugmyndir um breytingar. Þessar hugmyndir voru skoðaðar, af sérfræðingum, hagsmunaaðilum og öðrum. Niðurstaðan var sú að breytingarnar væru ekki til farsældar. Ríkisstjórnin ákvað að slá þær þá út af borðinu.

imagesCAJ7D70X Stjórnvöld í Noregi hugðu að breytingum á fiskveiðistjórnuninni, en hurfu frá þeim, eftir að hafa séð að þau leiddu til vandræða í sjávarbyggðunum

Þannig kom til álita að leggja á veiðigjald, eins og hér er gert. Ríkisstjórnin lét fara yfir þá spurningu. Um það segir í grein Helga Áss: „Eftir að hafa metið málið í heild sinni hefur ríkisstjórnin komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunir strandsvæða séu best varðir með því að arður í fiskveiðum sé sem mest haldið innan atvinnugreinarinnar og innan strandsvæðanna...Ríkisstjórnin mun því ekki leggja á auðlindaskatt á þá sem stunda fiskveiðar í atvinnuskyni.“

Sama var að segja um breytingar á framsali sem ríkisstjórnin velti fyrir sér. Um það segir Helgi Áss í grein sinni:  “Rauð-græna ríkisstjórnin afnam þetta ákvæði tímabundið og skipaði nefnd til að endurskoða málið en féllst svo á álit nefndarinnar um að leyfa bæri slíkt framsal.”

Ólíkt hafa þeir sem sagt að. Rauðgræna ríkisstjórnin í Noregi hlustar á rök, hún íhugar málin og byggir niðurstöðu sína á athugunum á því sem gagnast þjóðinni best. Hér á landi vinna starfssystkini hennar með þver öfugum hætti. Þau keyra áfram málin á grundvelli kreddusjónarmiða og án faglegs undirbúnings og setja grundvallaratvinnuveg okkar í fjötra óvissu.


Þau ætla að verja heimsmetsnafnbótina í sviknum loforðum

 

 

Það er langt síðan að ríkisstjórnin sló öll met í sviknum loforðum. Þess vegna er svo komið að enginn treystir því lengur sem forystumenn ríkisstjórnarinnar gefa fyrirheit um. Hingað til hafa menn hins vegar almennt talið að einvörðungu væri um íslandsmet að ræða í sviknum loforðum. Nú er orðið ljóst að ríkisstjórnarforystuna hampar ekki einasta íslandsmetinu, heldur hefur fengið til eignar heimsmeistarabikarinn fyrir svikin loforð. Þessa útnefningu fékk hún úr hendi heildarsamtaka launafólks á Íslandi, ASÍ.

trophy

Og það sem verst er auðvitað að ekki verður neitt annað skilið en að þennan titil ætli ríkisstjórnin að verja og halda áfram að svíkja samtök launafólks, atvinnulífið og lífeyrissjóðina og sjóðfélaga þeirra.

Bakgrunnurinn er þessi:

Í gær ákvað Alþýðusamband Íslands að stefna íslenskum stjórnvöldum vegna skatts á lífeyrissjóðina. ASÍ bendir á að umrædd skattlagning lendi einungis á lífeyrisréttindum fólks á almennum markaði og brjóti gróflega, eins og segir í ályktuninni, gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þeir færa fyrir þessu rök í sérstakri greinargerð, benda á að fyrir ári hafi ríkisstjórnin lagt fram frumvarp þar sem lagt var til að settar yrðu verulegar álögur á lífeyrissjóðina. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra höfðu þá sent forseta Alþýðusambandsins og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins bréf þess efnis að ríkisstjórnin mundi sjá til þess með beinum framlögum að ekki kæmi til fyrrgreindrar skerðingar.-  „Ekkert hefur verið gert í því að koma í veg fyrir neikvæð áhrif umrædds skatts“, sagði svo ASÍ í greinargerðinni

Það er enn fremur rifjað upp að við endurskoðun kjarasamninganna í janúar á þessu ári lögðu oddvitar ríkisstjórnarinnar, hin sömu Jóhanna og Steingrímur fram minnisblað um með hvaða hætti til stæði að afnema þessi lög með sérstöku samkomulagi um aðkomu lífeyrissjóðanna að áætlun Seðlabanka Íslands um útboð á aflandskrónum.

Og enn er sagt í greinargerð ASÍ um þetta: „Minnisblaðið hafði mikil áhrif á að ekki kom til uppsagna kjarasamninga.“

Í febrúar síðastliðnum var síðan undirritað samkomulag milli lífeyrissjóðanna og þáverandi fjármálaráðherra um þátttöku lífeyrissjóðanna í þessum útboðum.

Enn segir í greinargerð Alþýðusambandsins: „Nú hefur fjármálaráðherra með stuðningi ríkisstjórnarinnar ákveðið að virða ekki þennan samning.“

Með öðrum orðum, eins og segir í ályktun Alþýðusambands Íslands, er ekki bara búið að svíkja þessi loforð einu sinni, ekki bara tvisvar, heldur þrisvar.

Um þessi mál segir forseti Alþýðusambands Íslands í útvarpsfréttum í gær: „Ég verð að viðurkenna að þetta er nú farið að jaðra við eitthvert heimsmet.“

Gylfi_Arnbj_rnsson-11stornet Fylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ um svik ríkisstjjórnarinnar: „Ég verð að viðurkenna að þetta er nú farið að jaðra við eitthvert heimsmet.“

 

 

Ríkisstjórnin er fyrir löngu síðan  orðin íslandsmethafi í því að svíkja gefin loforð og fyrirheit. Það íslandsmet stendur og engar líkur á því að því verði nokkurn tíma hnekkt. En nú liggur fyrir að ríkisstjórnin er ekki bara íslandsmethafi í því að svíkja loforð og gefin fyrirheit, heldur handhafi heimsmeistaratitilsins. Hún hampar virðingarnafnbótinni, heimsmetshafi  í því að svíkja gefin loforð og fyrirheit að mati forseta Alþýðusambands Íslands.

Ég spurði forsætisráðherrann á Alþingi í dag hvort ætlunin væri að  verja þennan nýfengna en vafasama titil sinn eða hvort hún ætlaði svona til tilbreytingar að standa einu sinni við gefin loforð?

Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur voru þau að greinilega er ætlunin að verja nafnbótina sem forseti ASÍ færði ríkisstjórninni; heimsmetshafi í sviknum loforðum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband