Öskur hins tannlausa ljóns

 

 

Þegar ríkisstjórnin hefur algjörlega misst stjórn á viðfangsefni sínu, nýtur einskis trausts þjóðarinnar og glímir við mikil pólitísk innanmein, er bara eitt eftir sem hún getur státað af. Hæfileikinn til þess að hóta. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beitt hótunartækninni meira og minna allan sinn pólitíska feril og stundum hafa menn látið undan.Og núna þegar allir kraftar ríkisstjórnarinar eru þrotnir, heyrist gamalkunnugt urr úr barka forsætisráðherrans. Þetta er eins og öskur hins tannlausa ljóns.

Öskur hins tannlausa ljóns 

Nýjasta hótunin var sú að ef þingið ekki veskú, samþykkti vanhugsaðar og illa unnar tillögur stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis um þjóðratkvæðagreiðslur um einhverjar vitleysisspurningar um tillögur að nýrri stjórnarskrá, yrði bara efnt til atkvæðagreiðslu í haust með ærnum tilkostnaði.

Og þeir sem á hlýddu áttu auðvitað að álykta sem svo að þeir sem ekki beygðu sig fyrir hótun forsætisráðherrans myndu bera ábyrgð á 250 milljóna reikningi vegna þjóðaratkvðagreiðslu að hausti.

Þvílíkt della, allt saman. Þarf þó ekki að koma á óvart, þetta er svo sem í stíl við annað.

Af hverju erum við í þessari stöðu?  Ástæðan er einföld. Ríkisstjórnin er svo gjörsamlega búin að forklúðra málinu að með endemum er. Stjórnarflokkarnir hafa rofið allan frið um endurskoðun stjórnarskrána, farið sínu fram og bera nú ábyrgð á dellumakeríinu. Enginn veit í raun hvernig málið er statt efnislega, eftir að ríkisstjórnin hefur þvælst með það í fangi sínu í meira en þúsund daga.

Fyrir liggja tillögur nefndar sem skipuð var og kölluð stjórnarlagaráð. Enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar hefur tekið undir þær. Þessar tillögur eru nú munaðarlausar og á reiki.

Óhugsuð hugdetta sem hraut af vörum forsætisráðherrans á einhverri stundu um að tillögur þessar ættu að ganga  til þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur elt ríkisstjórnina eins og uppvakningur. Og því varð niðurstaðan sú að klastra saman spurningum til þess að spyrja þjóðina samfara forsetakosningum.  Þær spurningar voru svo illa samansettar að  mati sérfræðinga að óbrúklegar eru taldar. Hefðu þær ekki nægt til þess að fleyta höfundunum í gegn um aðferðarfræðipróf á fyrsta ári.

Jóhanna Sigurðardóttir

En betur gátu stjórnarliðar ekki gert eftir þúsund daga heilabrot.

En kostnaðurinn af öllu saman hleypur á hundruðum milljóna króna. Kostnaður af þjóðaratkvæðagreiðslu með forsetakosningum verður líka há upphæð, rétt eins og ef kosið yrði sérstaklega um tillögurnar. En klúðrið og kostnaðurinn sem þessu fylgir er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hvernig svo sem allt fer. Það þýðir því ekki fyrir forsætisráðherrann að hrópa og hóta og fárast yfir kostnaði.  Hún situr uppi með ábyrgðina á kostnaðinum og ruglinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband