Er Jóhanna ekki nógu dugleg á netinu?

 

Þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var spurður um ástæður þess að hafa ekki upplýst utanríkismálnefnd Alþingis um að ESB hygðist gerast málsaðili í dómsmálinu gagnvart okkur vegna Icesave, sagði hann efnislega:  Þeir sem vildu fylgjast með þessu máli, hefðu getað gert það með því að fylgjast með á netinu.

Jóhanna Sigurðardóttir

Það er nefnilega það.

Þingmenn sem ætla að fylgjast með framvindu þessa mikilvæga máls eiga sem sagt að vafra um á netinu. Þá vitum við það.

Þetta hlýtur þá líka að eiga við um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún upplýsti það í útvarpsviðtali að sér hefði ekki verið ljóst hvað var á seyði fyrr en hún heyrði það í kvöldfréttum útvarpsins. Hún hafði greinilega ekki verið nógu dugleg við að fara um hinar víðlendu ekrur alnetsins og því misst af fréttunum, þar til þær birtust í fréttatíma Ríkisútvarpsins.

Kárínur utanríkisráðherrans beinast því augljóslega sérstaklega að forsætisráðherranum.

En hvað með aðra ráðherra? Vissi til að mynda formaður VG, hins stjórnvarflokksins um þetta? Hafði Steingrímur J. Sigfússon brugðið sér á alnetið til þess að fiska upp þessar fregnir af nýjasta útspili ESB gegn okkur.

Kjarni málsins er auðvitað sá að fyrirsvarsmenn Icesavemálsins ræktu ekki eðlilegt samráð við utanríkismálanefnd Alþingis. Það hefur utanríkisráðherra núna viðurkennt. En þessi framgangsmáti mun hins vegar auka tortryggni, því miður.

Framganga ESB er auðvitað forkastanleg. Hún er pólitísk yfirlýsing af þeirra hálfu. Bandalagið er að taka sér stöðu gegn okkur. Og þó málstaður okkar sé góður og sterkur, þá breytir það því ekki að aðkoma ESB í málinu er mikil ögrun. Ekki síst núna þegar við erum í miðjum aðildarviðræðum ( sem aldrei skyldi verið hafa). Þetta sjá flestir. Nema auðvitað innmúraðir aðildarsinnar. Og athyglisvert er það sérstaklega, að engir hafa brugðist jafn hart til varnar Evrópusambandinu og talsmenn VG. Miklu harðar en félagar þeirra í Samfylkingunni. Þeir talsmenn VG virðast vera endanlega gengnir í ESB björgin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband