Ríkisstjórnin er eins og gömul tómatssósuflaska

 

Ég líkti ríkisstjórnini og verklagi hennar við gamla tómatssósuslösku þegar ég ræddi dæmalaust verklag hennar undir dagskrárliðnum Fundarstjórn forseta á Alþingi í gær og sagði: „Það er að verða með þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, hún er mest farin að minna mig núna á gamla tómatsósuflösku. Fyrst reyna menn að hrista eitthvað, [Hlátur í þingsal.] lítið kemur úr þessu þangað til allt í einu þá spýtist allt innihaldið út úr flöskunni á síðustu stundu. Þannig er ríkisstjórnin farin að vinna, þetta er að verða ein allsherjarsósugerð (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar og þá er auðvitað ekki við góðu að búast.“ (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

2rikisstjornJS-31des11 

Sjá HÉR og einnig HÉR.

Áður sagði ég: „Hér í hliðarsal mér á vinstri hönd er myndarlegur rekki sem geymir þingskjöl og dagskrárskjöl Alþingis. Þegar maður hefur litast um í þessum rekka nú í vetur og leitað eftir þingmálum ríkisstjórnarinnar hefur verið frekar tómlegt yfir að líta þangað til núna, nokkrum mínútum áður en 1. apríl rann upp. Þá gerðist það skyndilega að rekkinn fylltist, öll borð og bekkir, gluggakistur og gólf, af þingmálum sem komu hér inn á síðustu stundu. Núna standa eftir rúmlega 20 þingdagar af störfum Alþingis þar til Alþingi fer í sitt hefðbundna frí í lok næsta mánaðar.“

Ríkisstjórnin hefur verið mjög verkasmá það sem af er þessu þingi. Frægt hefur það orðið að endemum að sjálf atvinnuveganefndin hefur verið atvinnulaus vegna þess að ríkisstjórnin hefur varla lagt fram nokkur mál á þessu málasviði sínu. En svo gerist það rétt áður en lögbundinn frestur er liðinn, að málum er hrúgað inn, en nú eru einungis ríflega 20 þingdagar eftir þar til þingi lýkur í vor.

Ríkisstjórnin eins og tómatssósuflaska

54 málum var dembt inn í þingið rétt fyrir lögbundinn frest. Grípa varð til þess ráðs að setja á sérstakan fund á Alþingi, þar sem forseti las í belg og biðu heiti allra þessara mála, í samræmi við þingsköp, svo ekki yrði tekinn dýrmætur tími frá öðrum þingstörfum!!

Þetta er svo sem ekki einsdæmi. Þvert á móti. Þetta er orðinn plagsiður ríkisstjórnarinnar.

Í fyrra var 52 þingmálum stjórnarinnar varpað inn í þingið með sama hætti og árið þar á undan 53 málum.

Svo bætir ríkisstjórnin gráu ofan í svart. Þannig var í gær mælt fyrir þingsályktun um breytingar á Stjórnarráðinu. Málið var gjörsamlega óundirbúið. Greinargerð tillögunnar var svo illa úr garði gerð, að ekkert var á henni að græða. Þegar ráðherrar voru spurðir út í efni tillögunnar var öllu svarað út í hött og greinilegt að efni málsins þoldi ekki dagsljósið.

Augljóst er að ríkisstjórnin er með allt niður um sig í þessu máli, sem og öðrum. Í umræðunni kom fram að tveir fyrrverandi ráðherrar, Árni Páll Árnason og Jón Bjarnason eru málinu andsnúnir og því augljóst að ríkisstjórnin hefur ekki þingstyrk úr eigin röðum til þess að knýja það fram

Orð forsætisráðherra verða ekki skilin öðruvísi en svo að hún reiðir sig á varadekk úr röðum annarra flokka  til þess að tryggja framgang málsins. Fróðlegt verður að sjá hvort henni verði að ósk sinni.

Svona framgangsmáti er ekki líklegur til þess að greiða fyrir þingstörfum. Það er auðvitað lágmarkskrafa að spurningum sé svarað og málin upplýst. Pukur og leyndarhyggja, aðalsmerki núverandi ríkisstjórnar, eru ekki góðir vegvísar fyrir góðar og gagnlegar umræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband