16.12.2012 | 10:32
Veiðileyfið gefið út
Stríð stjórnarflokkanna á hendur verkalýðshreyfingunni heldur áfram. Nú er svo komið að gefið hefur verið út veiðileyfi jafnt á hreyfinguna sjálfa og talsmenn hennar. Þetta magnaðist um allan helming eftir að Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ vann sér það til óhelgis að hafa sagt sig úr Samfylkingunni.
Stjórnarflokkarnir hafa nú lagt út í opið stríð við verkalýsðhreyfinguna og gefið út veiðileyfi á hana og forystumenn hennar
Þetta sjáum við í bloggum, fésbókarfærslum, atgangi í þingnefndum og hvar raunar sem því verður við komið. Augljóst er að sú ákvörðun hefur verið tekin á stjórnarheimilinu að vaða af hörku gegn verkalýðshreyfingunni, í stað þess að freista þess að skapa nýjan frið og laga samstarfið, sem ætti þó að vera sjálfsagt viðfangsefni á háskalegum tímum.
Óli Björn Kárason vekur athygli á þessu máli á hinum geysi góða vef sínum http://www.t24.is/
Í hugum stjórnarliða er verkalýðshreyfingin greinilega orðinn óvinur, sem vinna þarf bug á með öllum tiltækum ráðum. Það er eins og stjórnarliðar telji það verkalýðsbaráttu að berjast gegn verkalýðshreyfingunni!
Þetta er einsdæmi á síðari árum amk. Og það vekur athygli á því á hvaða leið þeir stjórnmálaflokkar eru, sem eiga sér forsögu í gegn um forvera sína með sterkum tengslum við verkalýðshreyfinguna.
Ekki að þetta eigi að koma okkur alveg á óvart. Stjórnarflokkarnir hafa lítt skeytt um samráð. Það sem kom þó hvað mest á óvart var þetta fullkomna skeytingarleysi sem birtist gagnvart launþegum og samtökum þeirra. Þetta birtist okkur til dæmis á breytingum á fiskveiðilöggjöfinni, þegar samtök sjómanna voru skipulega hunsuð. Þetta sáum við líka í margvíslegum ákvörðunum á skattamálum, til dæmis gagnvart lífeyrissjóðunum.
En nú er skrefið stigið ennþá lengra. Nú er skollið á hreint stríð við verkalýðshreyfinguna og í þessu stríði er ljóst að engu skal eirt.
Forystufólk stjórnarflokkanna hefur skilgreint verkalýðshreyfinguna sem óvin og hegða sér í samræmi við það. Fyrri forystumenn vinstri flokka hefðu aldrei látið sér slíkt til hugar koma.
Þetta hefði aldrei gerst í tíð forystumanna vinstri flokka fyrri tíma. Þeim var ljós hin sögulega þýðing samstarfsins við verkalýðshreyfinguna; verklýðshreyfing og verklýðsflokkar sögðu þeir með svona framburði með úrfellingarmerki.
En nú er öldin önnur. Nú eru aðrir tímar og annað forystufólk, sem fer sínar eigin leiðir eins og kötturinn. Þau skilja ekki þýðingu samstarfsins, né mikilvægi þess að skapa frið í samfélaginu eða fylkja fólki saman.
Þau lifa í sínum litla einangraða hugarheimi, inni í fílabeinsturninum. Þau tala hvert upp í annað og skilja ekkert hvað gerist utan sinna eigin víggirtu borgarmúra. Þau hafa nú komist að því að verkalýðshreyfingin er óvinurinn, af því að hún situr ekki og stendur eins og gert er ráð fyrir í bókum flokksforystunnar. Þess vegna er skollið á stríð við verkalýðshreyfinguna og þess vegna er búið að gefa út veiðileyfi á forystu hennar.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook