Við erum sigurvegararnir

KosningaúrslitinHelsti sigurvegari alþingiskosninganna nú er Sjálfstæðisflokkurinn. Flokkurinn bætir við sig umtalsverðu fylgi sem í sögulegu samhengi er mjög gott. Þetta gerist eftir 16 ára stjórnarsamstarf þegar mjög margir töldu ólíklegt að flokkurinn gæti haldið hlut sínum; hvað þá að að auka fylgi sitt. Þeim mun gleðilegri er árangur flokksins. Þetta er glæsilegt í sögulegu samhengi. Þetta er sömuleiðis stórglæsilegt í alþjóðlegu samhengi. Slík kosningaúrslit að loknu fjögurra kjörtímabila stjórnarsetu er fádæmi og mun vekja athygli víða.

Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins hefur styrkt stöðu sína geysilega mikið. Það er ekki liðið ár síðan hann varð forsætisráðherra og stutt síðan hann var kjörinn formaður flokksins. Á þeim tíma hefur hann áunnið sér mikils traust og vinsældir þjóðarinnar. Hann ber í dag höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaleiðtoga. Það dylst engum. Þjóðin bókstaflega kallaði eftir því að hann yrði forsætisráðherra. Kjósendur vildu einnig að Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram í ríkisstjórn.

Í síðustu kosningum náðum við mjög góðum árangri hér í Norðvesturkjördæmi. Við höldum nokkurn veginn hlut okkar núna og getum því afar vel við hlut okkar unað. Þingmönnum kjördæmisins fækkaði um einn, engu að síður héldum við okkar þremur kjördæmakjörnu mönnum og erum með fyrsta þingmann kjördæmisins. Sjálfstæðisflokkurinn er líka alveg ótvírætt forystuafl í þessu kjördæmi og langur vegur frá okkar stöðu og að þeim flokki sem næst okkur kemur í fylgi. Á margan hátt voru aðstæður okkur harðdrægar. Í sumum hlutum kjördæmisins riðu yfir alvarleg áföll í atvinnumálum. Það er sitjandi stjórnarflokkum mótdrægt; einkum flokki sem er í stjórnarforystu. Engu að síður er árangurinn svona góður.

Hinn sigurvegarinn

Hinn sigurvegari kosninganna er Vinstrihreyfingin grænt framboð. Flokkurinn bætti við sig 5,5 % fylgi sem er mjög umtalsvert. Hins vegar er flokkurinn ekki að ná þeim árangri sem forystumenn hans væntu. Það leyndi sér ekki í sjónvarpinu í gærkveldi, þegar formaður flokksins stóð í húminu sunnan undir vegg flugskýlisins á Reykjavíkurflugvelli, að hann var ekki ánægður með árangurinn. 5,5% er vitaskuld mjög umtalsverð fylgisaukning, en óhjákvæmilega hljóta menn að bera stöðuna núna saman við skoðanakannanir í vetur sem sýndu gríðarlega sterka stöðu flokksins. Það er ekki langt síðan að VG var með helmingi meira fylgi í skoðanakönnunum en í kosningunum í gær. Það vita allir að flokksmenn eru núna ekki allskostar sáttir. Þeir munu í huga sér að sjálfsögðu ekki skoða stöðu sína öðruvísi en í samhengi við mælingarnar á fylginu nú í vetur.

Framsókn

Tveir flokkar missa fylgi. Framsóknarflokkur tapar umtalsverðu fylgi frá kosningum. 6,0 prósentustiga tap er mikið. Á hinn bóginn er þess að gæta að flokkurinn hefur lengi mælst mjög illa og margir voru til þess að spá illa fyrir flokknum í kosningunum. Það er hins vegar ljóst að flokkurinn kom betur út en lengst af leit út fyrir. Jafnvel ef bornar eru saman kannanir rétt fyrir kosningarnar og úrslitin þá blasir við að flokkurinn vann á. Formaður flokksins ávann sér traust. Hann var málefnalegur og hógvær, höfðaði til margra og uppskar virðingu meðal annars andstæðinga. Það er vitaskuld gríðarlega verðmætt fyrir flokkinn við þessar aðstæður og mun gagnast honum  í framtíðinni.

Samfylking

Sá flokkur þar sem mestrar vonbrigða gætir, er hins vegar klárlega Samfylkingin. Flokkurinn ætlaði að verða álíka stór og Sjálfstæðisflokkurinn. Nú er óralangt frá því. Heil tíu prósentustig skilja flokkana að núna. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn jók fylgi sitt um 3 prósent, tapaði Samfylkingin rífum 4 prósentum. Nú er Samfylkingin í sömu sporum og í öndverðu þegar flokkurinn lagði af stað í lífsgöngu sína. Þá voru allir sammála að flokkurinn væri veikur og nú er fylgisleg staða hans algjörlega eins. Það dettur engum í hug að forysta flokksins sé ekki svekkt yfir úrslitunum. Þar sem flokkurinn var í góðum málum við síðustu kosningar með forystu í Reykjavíkurkjördæmi norður minnkar hann núna. Hann tapar alls staðar fylgi. Hér í Norðvesturkjördæmi tapar flokkurinn enn. Í síðustu kosningum gekk flokknum illa og heldur áfram á þeirri tapbraut, þrátt fyrir gífurleg pólitísk loforð og fyrirferðamikla baráttu. Það er ljóst að flokkurinn hefur einfaldlega ekki haft hljómgrunn í kjördæminu. Allt fyrir neðan fylgi í síðustu kosningum er ósigur. Fjögurra prósenta tap er því mikið áfall fyrir flokkinn. Tapi flokksins ofan í kosningarnar fyrir fjórum árum verður einvörðungu lýst með enn stærri orðum.

Frjálslyndir

Frjálslyndi flokkurinn hélt hlut sínum þrátt fyrir klofning. Engu að síður er það misskilningur sem sumir stjórnmálaskýrendur hafa haldið fram að flokkurinn hafi unnið einhvern sigur, til dæmis í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn hélt þar sínum hlut, eins og í landinu í heild, en engu meira. Yfir flokknum virðist þó heillastjarna þegar kemur að útdeilingu jöfnunarsætisins. Þeir hrepptu það fyrir fjórum árum og aftur núna. Þannig er flokkurinn með tvo þingmenn núna, þó flokkurinn sé sá minnsti í kjördæminu ( þ.e þeirra flokka sem á annað borð fengu mann kjörinn). Stærri flokkar eins og Framsókn og VG mega láta sér lynda að vera með einn þingmann í Norðvesturkjördæmi.

Hver er þá staðan?

Þannig er því staðan núna. Sjálfstæðisflokkurinn er hinn afdráttarlausari sigurvegari. Það er mikið afrek í ljósi pólitískra aðstæðna. Ríkisstjórnin heldur meirihlutanum, gagnstætt því sem skoðanakannanir og álitsgjafar höfðu haldið fram. Vinstri grænir vinna ágætan sigur, en hann stendur þó í skugga hins mikla árangurs sem flokkurinn náði í skoðanakönnunum. Samfylking varð fyrir miklum vonbrigðum og hin fögru og áferðarfallegu orð um stöðu flokksins sem féllu af vörum forystumanna hans við lok kosninga eru marklítil. Frjálslyndi flokkurinn stendur í stað, en hefur augljóslega málað sig út í hið pólitíska horn með málflutningi sínum. Það blasir við öllum.

Margir spáðu því að nú rynni upp vinstra vor. Við sáum álitsgjafana koma í fjölmiðla og fimbulfamba um þetta. Enginn segir það núna, enda alls engin ástæða til. Samfylking tapaði tveimur þingmönnum, Vinstri grænir bættu við sig fjórum. Nettóávinningur er tveir þingmenn. Við Sjálfstæðismenn bættum við okkur þremur þingmönnum. Okkar árangur er því gífurlega góður en vonbrigði vinstri manna eru þeim mun meiri.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband